Allir þátttakendur sigra í Hamingjuhlaupinu
Meðal ótalmargra viðburða á Hamingjudögum á Hólmavík er Hamingjuhlaupið sem verður á laugardag, þriðja árið í röð. Það er Stefán Gíslason umhverfisfræðingur og fyrrum sveitarstjóri á Hólmavík, hamingjusamur bóndasonur og þekktur hlaupagikkur frá Gröf í Bitrufirði, sem stendur fyrir hlaupinu. Hamingjuhlaupið er skemmtihlaup og þess vegna eru allir sigurvegarar sem taka þátt í því. Ofurhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson stefnir að því að verða meðal þátttakenda. Hægt er að koma inn í hlaupið hvar sem er enda alls engin skylda að hlaupa frá upphafi til enda.
Hlaupaleiðin að þessu sinni er þannig að lagt verður upp frá Gröf í Bitrufirði, hlaupið norður yfir Bitruháls, komið niður að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði, þaðan hlaupið fyrir botn Kollafjarðar, upp í Deildarskarð utan við Litla-Fjarðarhorn, yfir Hvalsárdal að Heydalsá í Steingrímsfirði og þaðan eftir þjóðvegi nr. 68 og síðar nr. 61 til Hólmavíkur. Ef öll leiðin er hlaupin er vegalengdin 35,5 km og vantar þá aðeins tæpa sjö kílómetra í maraþonhlaup.
Nánar:
Dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík 2011