Tenglar

1. desember 2011 |

Allir velkomnir á fullveldishátíð Reykhólaskóla

Sjá skýringar í meginmáli.
Sjá skýringar í meginmáli.

Fullveldishátíð Reykhólaskóla verður í íþróttahúsinu á Reykhólum annað kvöld, föstudaginn 2. desember, og þangað eru allir velkomnir. Hátíðin byrjar kl. hálfátta og stendur til kl. ellefu en nemendur eru beðnir að koma kl. sjö. Miðaverð er kr. 1.000 fyrir 16 ára og eldri og innifalið í því eru skemmtun og veitingar. Nemendur og starfsfólk Reykhólaskóla hlakka til að sjá sem flesta á hátíðinni.

 

Skólabílar munu ekki aka nemendum heim að skemmtun lokinni.

 

Myndin sem hér fylgir er koparrista eftir danskan listamann (smellið til að stækka) sem sýnir með táknrænum hætti þegar Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld úr Svefneyjum drukknaði í Breiðafirði árið 1768. Um þann atburð orti þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði frægt kvæði.

 

Eggert Ólafsson var fæddur árið 1726 - hinn 1. desember. Þann dag árið 1918 hlaut Ísland fullveldi en var enn um sinn í konungssambandi við Danmörku auk þess sem Danir önnuðust utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir Íslendinga. Það er að vísu tilviljun að fullveldisdagurinn skuli jafnframt vera fæðingardagur Eggerts Ólafssonar.

 

Allt annar Eggert sem var mjög þekktur á sinni tíð var líka fæddur 1. desember. Það var Eggert Stefánsson óperusöngvari á Ítalíu (1890-1962), bróðir Sigvalda Kaldalóns (Sigvalda Stefánssonar) tónskálds og læknis.

 

Sigvaldi Kaldalóns var um tíma héraðslæknir í Flatey á Breiðafirði. Þar samdi hann lagið við eitt þekktasta kvæði Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið, og þar í eynni söng Eggert bróðir hans það í fyrsta sinn opinberlega. Stundum er sagt að Ísland ögrum skorið ætti að vera þjóðsöngur Íslendinga öllu frekar en Lofsöngur séra Matthíasar Jochumssonar frá Skógum og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, sem ýmsum reynist frekar torsungið.

 

Daginn þegar Ísland hlaut fullveldi, 1. desember 1918, var þríliti fáninn sem enn er tákn lands og þjóðar dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þótt hann hafi þá í nokkur ár verið formlega viðurkenndur af konungi. Litir hans merkja bláma fjallanna, ísinn og eldinn. Um gerð fánans höfðu staðið deilur og vildu margir að Hvítbláinn, hvítur kross á bláum grunni, yrði þjóðfáni Íslendinga. Núna er Hvítbláinn fáni Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), landssambands ungmennafélaga.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31