16. mars 2015 |
Allt til alls á spottprís á Reykhólum líka annað kvöld
„Markaðurinn gekk mjög vel,“ segir Anna Björg Ingadóttir kennari, sem átti upptökin að flóamarkaðinum á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum í veðurblíðunni í gær. Þar var margt um manninn og verður markaðurinn aftur opinn á sama staðnum kl. 18-20 á morgun, þriðjudag. Þá verða fleiri komnir inn með söluborð - „þannig að það er um að gera að koma og gramsa, prútta og gera góð kaup,“ segir Anna Björg.
Myndirnar sem hér fylgja tók Herdís Erna Matthíasdóttir á markaðinum í gær. Eins og sjá má er úr mörgu að moða. Á boðstólum voru og verða meðal annars fatnaður, leikföng, húsbúnaður, raftæki, skíði, bækur, dvd, rækjur, hverarúgbrauð og margt fleira á spottprís.