Tenglar

14. október 2020 | Sveinn Ragnarsson

Ályktun sveitarstjórna um afurðaverð

Sveitarstjórnir Húnaþings vestra, Dalabyggðar, Strandabyggðar og Reykhólahrepps hafa ályktað sameiginlega um afurðaverð til sauðfjárbænda. Sveitarstjórn Reykhólahrepps samykkti ályktunina formlega á fundi þann 8. okt.

 

Sauðfjárrækt er ein stærsta stoðin undir byggð í þessum sveitarfélögum og brýnt að bændur búi við meira afkomuöryggi í sínum rekstri.

 

Afurðarverð til sauðfjárbænda, ályktun:

Sveitarstjórnir Húnaþings vestra, Dalabyggðar, Strandabyggðar og Reykhólahrepps lýsa yfir þungum áhyggjum af lágu afurðaverði til sauðfjárbænda og þeim seinagangi sem var við birtingu afurðastöðvaverðs haustið 2020.

 

Sauðfjárrækt er stærsta búgrein þessara sveitarfélaga og mikilvæg forsenda búsetu í dreifbýli sveitarfélaganna en í þessum sveitarfélögum var rúmlega 21% af framleiðslu kindakjöts árið 2019. Á undanförnum árum hafa orðið ábúendaskipti á nokkrum bújörðum í sveitarfélögunum og yngra fólk með fjölskyldur tekið við. Þeim fylgja börn á skólaaldri og styðja þessar fjölskyldur þannig við þá þjónustu sem sveitarfélögin veita ásamt því að halda uppi atvinnustigi á svæðinu.

 

Líkt og í öðrum rekstri er mikilvægt að sauðfjárbændur fái sanngjarnt verð fyrir sína vöru og hafi þannig forsendur til áætlanagerðar og ákvarðanatöku. Sveitarstjórnirnar skora því á afurðastöðvar að gefa út afurðaverð 2021 fyrir komandi áramót.

 

Samkvæmt samantekt Landssamtaka sauðfjárbænda var afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda á síðasta ári það lægsta sem finnst í Evrópu og miðað við nýbirtar verðskrár 2020 er vegið meðalverð 502 kr/kg. Hefði afurðaverð fylgt almennri verðlagsþróun frá 2014 ætti það að vera 690 kr/kg. Því vantar enn tæpar 200 kr/kg uppá afurðastöðvaverð og það gengur ekki upp til lengdar að greiða verð undir framleiðslukostnaði.

 

Í heimsfaraldri vegna COVID-19 fengu Íslendingar góða áminningu um mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og nauðsynlegt er að styðja vel við hana. Það er ekki síður mikilvægt fyrir landbúnaðarhéruð eins og Húnaþing vestra, Dalabyggð, Strandabyggð og Reykhólahrepp að sauðfjárbændur fái sanngjarnt verð fyrir sína framleiðslu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30