Tenglar

27. mars 2009 |

Áreiðanleiki rafmagns er minnstur á Vestfjörðum

„Áreiðanleiki raforkuafhendingar í kerfi Landsnets er lægstur á Vestfjörðum. Meginástæðan fyrir því er að þangað liggur aðeins ein flutningsleið, Vesturlína, sem saman stendur af þremur línum, Glerárskógalínu 1, Geiradalslínu 1 og Mjólkárlínu 1. Línurnar, sem byggðar eru og reknar sem 132 kV línur liggja að hluta til um svæði þar sem veðurfar getur valdið truflunum á rekstri og staðhættir torveldað viðgerðarstörf í slæmum veðrum," segir í skýrslu Landsnets um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem nú er aðgengileg á heimasíðu Landsnets. Meðaltal samfélagslegs kostnaðar á Vestfjörðum vegna straumleysis árin 2002-2008, að teknu tilliti til keyrslu varaafls, er 84 milljónir króna á ári. Meðalkostnaður Landsnets vegna tapaðs flutnings og keyrslu varaafls er hins vegar ekki nema 10,4 milljónir króna á ári miðað við sama tímabil.

„Það er því eftir nokkru að sækjast að lækka hinn samfélagslega kostnað vegna straumleysis. Landsnet hefur nú um nokkurt skeið unnið að endurbótum á varnarbúnaði á Vestfjörðum í því skyni að leysa út einingar sem verða fyrir truflun með skjótum og markvissum hætti, þannig að truflunin hafi lágmarksáhrif á þá kerfishluta sem eftir standa. Einnig hefur verið ákveðið að styrkja hið staðbundna 66 kV flutningskerfi á Vestfjörðum með því að nýta meðal annars fyrirhuguð jarðgöng á svæðinu og leggja í þau jarðstrengi og bæta þannig áreiðanleika þeirra flutningslína sem tengja byggðarlögin saman," segir í skýrslunni.

Talið er að bæta megi afhendingaröryggi umtalsvert með tiltölulega litlum tilkostnaði. Er þar um að ræða að nýta alla þá kosti sem til boða standa varðandi það að leggja jarðstrengi í jarðgöng og leysa þannig af hólmi erfiðar línuleiðir. Einnig er í gangi vinna á vegum Landsnets við að endurnýja og endurbæta varnarbúnað og setja upp undirtíðnivarnir. Þetta eru grunnaðgerðir sem þarf að fara í, óháð því hvaða aðrar leiðir verða farnar að auki.

 

Nánar hér á fréttavefnum bb.is á Ísafirði. Þar neðst er tenging í umrædda skýrslu Landsnets.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31