Arnarsetrið: Unga von í hreiðrið á hverri stundu
Ætla má að ungarnir í arnarhreiðrinu sem vefmyndavél Arnarseturs Íslands vaktar sjái ljós heimsins núna hvern daginn sem er eða jafnvel á hverri stundu. Assan verpti að kvöldi 28. apríl þannig að í dag eru 36 dagar frá varpinu. Að jafnaði liggur fuglinn 35-40 daga á eggjunum þangað til ungarnir skríða úr þeim. Yfirleitt er fjöldi eggjanna eitt til þrjú en venjulega kemst ekki nema einn ungi á legg.
Sumir sem fylgst hafa með vefmyndavélinni hafa talið að þegar væru komnir tveir ungar í hreiðrið. Þegar fuglinn sem situr á hreiðrinu snýr frá vélinni og grúfir sig niður er sú missýning nærtæk, að vængirnir séu ungar. Á meðfylgjandi mynd réttir fuglinn sig hins vegar upp og hausinn kemur í ljós - ástæðan er sú, að aðrir fuglar (til vinstri á myndinni, smellið á hana til að stækka) fljúga í nokkurra feta fjarlægð frá hreiðrinu og raska ró hreiðursetans.
Farið er inn á myndavélina með því að smella á viðkomandi borða í tengladálkinum hér neðarlega til vinstri á síðunni. Líka með því að smella á samsvarandi stóran borða sem birtist öðru hverju af handahófi neðan við efstu frétt á forsíðunni.
Sjá einnig:
08.05.2009 Útsendingin frá arnarhreiðrinu komin í loftið
Ingveldur Róbertsdóttir, fimmtudagur 04 jn kl: 11:18
Frábært framtak, þetta er uppáhaldssíðan mín þessa dagana.