Tenglar

10. júlí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Arnarstofninn ekki stærri í hundrað ár

Hildibrandur í Bjarnarhöfn með lasinn örn (sem komst til fullrar heilsu). Ljósm. NSV.
Hildibrandur í Bjarnarhöfn með lasinn örn (sem komst til fullrar heilsu). Ljósm. NSV.

Staða arnarstofnsins og varpárangur er með besta móti í ár og minna er um að varpi sé spillt, að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

 

„Arnaróðul í ábúð eru nú talin 73, þar af urpu 48 pör og 31 þeirra er nú með alls 38 unga. Fleiri pör hafa nú komið ungum á legg en nokkru sinni frá því farið var að fylgjast reglulega með stofninum árið 1959. Þá hafa aðeins einu sinni áður orpið jafnmörg pör og það sama er að segja um fjölda stálpaðra unga í hreiðrum,“ segir Kristinn Haukur í samtali við blaðið.

 

Hann segir arnarstofninn ekki hafa mælst stærri í 100 ár. Núna er einmitt öld liðin frá því að örninn var friðaður og hálf öld frá því að bannað var að eitra fyrir refi.

 

Bannað að eitra fyrir refi 1964

 

Kristinn segir að um aldamótin 1900 hafi örnum tekið að fækka mikið vegna ofsókna og eiturútburðar. „Örninn var í bráðri útrýmingarhættu um miðja síðustu öld. Upp úr 1960 voru hér aðeins 20 pör og kom um og innan við helmingur þeirra upp ungum þegar best lét. Bannað var að eitra fyrir refi árið 1964 og fljótlega fór örnum að fjölga og hefur stofninn vaxið hægt og bítandi allar götur síðan.“

 

Minna um að varp sé skemmt

 

Kristinn segir engar óyggjandi fregnir hafa borist af því að arnarvarpi hafi verið spillt vísvitandi í ár. „Við vitum um a.m.k. eitt tilvik þar sem varp misfórst á svæði þar sem ernir urðu fyrir truflun af völdum manna sem sýndu ekki næga aðgæslu. Slíkum tilvikum hefur farið mjög fækkandi á undanförnum árum og skal bændum og öðrum landeigendum sérstaklega hrósað fyrir umgengni við þennan viðkvæma fugl,“ segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson í viðtalinu í Morgunblaðinu.

 

Á myndinni er Hildibrandur Bjarnason í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi með lasburða örn fyrir sjö árum. Myndin er fengin á vef Náttúrustofu Vesturlands.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30