Árný Huld gefur kost á setu í sveitarstjórn áfram
Ég, Árný Huld Haraldsdóttir, vil gefa kost á mér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn Reykhólahrepps.
Líðandi kjörtímabil hefur verið uppfullt af bæði spennandi og krefjandi verkefnum, sem ég hef lært mikið af og öðlast reynslu sem mun nýtast mér í hverju sem er.
Komi til þess að ég verði endurkjörin mun ég halda áfram að vinna af heilindum, fylgja eigin sannfæringu með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi og takast á við þau verkefni sem að höndum ber.
Meðal verkefna sem ég vil fylgja eftir eru:
- að taka nýjan leikskólavöll í gagnið
- framtíðarsýn og endurbætur á Grettislaug
- vinna að fjölgun íbúða á Reykhólum svo hægt sé að auðga mannlíf
- halda áfram að sinna viðhaldi á eignum Reykhólahrepps
- greiða fyrir bættri nýtingu á orku sem fæst úr heita vatninu
- styðja við dreifbýlið og atvinnuþróun í sveitarfélaginu
- starfa við verkefni með nágrannasveitarfélögum á jafnréttisgrundvelli.
Þetta er náttúrulega ekki tæmandi list og öll verkefni sem Reykhólahreppur tekur sér fyrir hendur þarf að vinna af heilindum og virðingu.
Emblu Dögg, Ingimar, Karli og Ágústu Ýr vil ég þakka gott samstarf í sveitarstjórn. Öllum þeim sem ég hef setið með í nefndum og unnið með þetta kjörtímabil óska ég líka alls hins besta. Vonandi getur samstarf okkar Jóhönnu haldið áfram næsta kjörtímabil og Ingibjörg Birna samþykki að sitja áfram sem sveitarstjóri sveitarfélagsins.
Mín von er að fá að halda áfram að vera talsmaður íbúa Reykhólahrepps og njóti hugrekkis til að gera betur í dag en í gær.
Árný Huld Haraldsdóttir
Bakka