Ársreikningur Reykhólahrepps 2016 lagður fram
Á sveitarstjórnarfundinum í gær var ársreikningur Reykhólahrepps 2016 lagður fram til fyrri umræðu. Sýnir hann góða afkomu sveitarsjóðs í fyrra, og nokkru betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Hér má sjá reikninginn, og reikningar stofnana verða birtir jafnóðum og þeir eru tilbúnir.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 533,7 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 398,1 millj. kr.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 39,5 millj. kr., en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 37,1 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi.
Heildareignir sveitarfélagsins námu 626 millj. kr. og heildarskuldir 185,7 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 440,3 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 379,1 millj. kr.