Ársveltan tvöfölduð á fáum árum
„Já, jólatraffíkin er farin af stað. Það eru farnar að seljast bækur til gjafa og fólk er talsvert farið að kaupa konfekt, þannig að það er ljóst að jólaverslunin er komin í gang,“ segir Eyvindur Magnússon, sem rekur verslunina Hólakaup á Reykhólum ásamt Ólafíu Sigurvinsdóttur konu sinni. Þau hafa rekið búðina í þrjú og hálft ár en voru áður orðin þrautreynd í verslunarrekstri. Eyvindur var verslunarstjóri í Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi í fimm ár og Ólafía verslunarstjóri hjá Kaupási / 11-11 í Reykjavík í sjö ár.
„Reksturinn á búðinni hefur farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Eyvindur aðspurður hvernig hafi gengið þessi ár miðað við þær væntingar sem þau höfðu. „Við erum búin að tvöfalda ársveltuna frá því að við komum. Þó svo að hvert ár hafi verið sveiflukennt miðað við árið á undan, þá hefur hvert ár skilað sér með aukningu. Til dæmis var met hjá okkur í sumar og haustið var gott. Nóvember var mjög góður,“ segir hann.
„En þetta er mjög mikil vinna, gríðarleg yfirlega, tímakaupið er ekki hátt. Maður þarf stanslaust að vera á tánum með alla hluti. Það má hvergi slaka á neinu, maður verður að vera passasamur í öllu sem snertir innkaup, sýna fyrirhyggju og hugsa nokkuð langt fram í tímann. Það eru sko ekki ferðir hingað á hverjum degi,“ segir Eyvindur Magnússon, kaupmaður í Hólakaupum á Reykhólum.
Björg Karlsdóttir, fstudagur 06 desember kl: 13:08
Ég er ekki hissa á þessum árangri þeirra Eyva og Ólafíu. Búðin hjá þeim jafnast á við hvaða verslun sem á stærri svæðum og vöruúrval og þjónusta er best á svæðinu að Búðardal meðtöldum. Til hamingju Ólafía og Eyvi.