Tenglar

5. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Ársveltan tvöfölduð á fáum árum

Eyvi og Ólafía í búðinni sinni á Reykhólum.
Eyvi og Ólafía í búðinni sinni á Reykhólum.

„Já, jólatraffíkin er farin af stað. Það eru farnar að seljast bækur til gjafa og fólk er talsvert farið að kaupa konfekt, þannig að það er ljóst að jólaverslunin er komin í gang,“ segir Eyvindur Magnússon, sem rekur verslunina Hólakaup á Reykhólum ásamt Ólafíu Sigurvinsdóttur konu sinni. Þau hafa rekið búðina í þrjú og hálft ár en voru áður orðin þrautreynd í verslunarrekstri. Eyvindur var verslunarstjóri í Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi í fimm ár og Ólafía verslunarstjóri hjá Kaupási / 11-11 í Reykjavík í sjö ár.

 

„Reksturinn á búðinni hefur farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Eyvindur aðspurður hvernig hafi gengið þessi ár miðað við þær væntingar sem þau höfðu. „Við erum búin að tvöfalda ársveltuna frá því að við komum. Þó svo að hvert ár hafi verið sveiflukennt miðað við árið á undan, þá hefur hvert ár skilað sér með aukningu. Til dæmis var met hjá okkur í sumar og haustið var gott. Nóvember var mjög góður,“ segir hann.

 

„En þetta er mjög mikil vinna, gríðarleg yfirlega, tímakaupið er ekki hátt. Maður þarf stanslaust að vera á tánum með alla hluti. Það má hvergi slaka á neinu, maður verður að vera passasamur í öllu sem snertir innkaup, sýna fyrirhyggju og hugsa nokkuð langt fram í tímann. Það eru sko ekki ferðir hingað á hverjum degi,“ segir Eyvindur Magnússon, kaupmaður í Hólakaupum á Reykhólum.

 

Athugasemdir

Björg Karlsdóttir, fstudagur 06 desember kl: 13:08

Ég er ekki hissa á þessum árangri þeirra Eyva og Ólafíu. Búðin hjá þeim jafnast á við hvaða verslun sem á stærri svæðum og vöruúrval og þjónusta er best á svæðinu að Búðardal meðtöldum. Til hamingju Ólafía og Eyvi.

Hlynur Þór Magnússon, fstudagur 06 desember kl: 14:29

Að mínu áliti væri illa komið fyrir Reykhólabúum og öðrum í héraðinu, mjög illa, ef ekki væri þessi búð, ef næstu búðir til að skreppa í væru á Hólmavík og í Búðardal. Þetta hef ég reyndar sagt margoft gegnum árin. Minni á hið fornkveðna: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Mér finnst afar mikilvægt að fólk versli hér í heimabyggð eins og mögulegt er og styðji þannig við og tryggi þessa ómissandi þjónustu. Jafnvel þó að hægt sé að fá sitthvað nokkrum krónum ódýrara með því að keyra suður í Bónus í Borgarnesi (um 300 kílómetra akstur fram og til baka, meira en fjögurra tíma skreppitúr) gagngert til að kaupa í matinn.

Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson, laugardagur 07 desember kl: 12:39

Ég kom þarna í fyrsta skipti í sumar þegar ég var á leið vestur um. Ég trúði varla mínum eigin augum yfir þvi hversu mikil afbragðsverslun þetta er. Hún er með mun betra grænmeti t.d en Krónan í Hafnarfirði og snyrtileg mjög.
Það hefur margt breyst á þeim 10 árum síðan ég kom þar inn síðast. Til hamingju!

Eyvindur, mnudagur 09 desember kl: 08:46

Þökkum hlý orð í okkar garð, þetta hvetur okkur áfram

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31