Tenglar

22. desember 2015 |

Áskorun til stjórnvalda

Stjórn Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum, SASV, skorar á stjórnvöld að bretta nú upp ermar og láta verkin tala í uppbyggingu raforkukerfisins á Vestfjörðum, nú 31 ári eftir þau fögru fyrirheit sem gefin voru í þeim efnum árið 1984. Tækifærin eru til staðar, bæði áhugi fyrirtækja til frekari atvinnuuppbyggingar og vilji fólks til að flytjast búferlum vestur, bjóðist ásættanleg lífsgæði og tækifæri til framtíðarbúsetu. Það er óásættanlegt að stjórnvöld dragi lengur að skapa Vestfjörðum sömu aðstæður og þær sem aðrir landshlutar hafa búið við í áratugi.

 

Stjórn SASV fagnar þeirri þeirri harðorðu brýningu sem Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og stjórnarmaður í Fjórðungssambandi Vestfirðinga, birti í blaðagrein í Fréttablaðinu 19. desember þar sem hann gagnrýndi harðlega þann seinagang sem viðgengist hefur í áratugi í uppbyggingu raforkukerfisins á Vestfjörðum. Sveitarstjórinn minnti á að árið 1984 hefði hringtengingu háspennulína hringinn í kringum landið lokið og hefðu stjórnvöld þá þegar boðað að næsta verkefni yrði að tengja Vestfirði hinu nýja hringsambandi. Síðan þá hefur lítið gerst þrátt fyrir síendurteknar óskir Vestfirðinga.

 

SASV tekur heils hugar undir hvert orð sem fram kemur í grein sveitarstjórans enda stendur hið bága ástand í raforkumálum Vestfirðinga samfélögunum fyrir þrifum, ekki síst frekari atvinnuuppbyggingu. Þess vegna er mikilvægt að endurbirta hér þá ályktun sem Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkti í byrjun október og sveitarstjóri Súðvíkinga minnti á í grein sinni í Fréttablaðinu:

 

„60. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Patreksfirði 2.-3. október 2015 krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi leggi strax til sérstakt fjármagn til að vinna kerfisáætlun fyrir raforku- og gagnaflutninga á Vestfjörðum. Meginmarkmiðið er að tengja virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, og aðra hugsanlega virkjunarkosti í Ísafjarðardjúpi, við öll byggðarlög á Vestfjörðum. Virkjun Hvalár verður þannig forsenda nýrrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu um leið og afhendingaröryggi raforku er tryggt.“

 

Samþykkt í stjórn Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum 22. desember 2015.

 

Stjórn SASV skipa Björgvin Sigurjónsson, Einar Kristinn Jónsson, Einar Sveinn Ólafsson formaður, Haukur Már Sigurðarson, Höskuldur Steinarsson, Sigríður I. Birgisdóttir og Sigurður Viggósson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31