Tenglar

6. maí 2009 |

Assan búin að verpa og útsendingar hefjast brátt

Ný mynd: Bóndinn hefur sig til flugs en frúin liggur á. Smellið á til að stækka.
Ný mynd: Bóndinn hefur sig til flugs en frúin liggur á. Smellið á til að stækka.

Svo fór eftir allt saman að assa tók sig til og verpti í hreiðrið þar sem vefmyndavél Arnarseturs Íslands var komið fyrir í breiðfirskum hólma í lögsögu Reykhólahrepps á síðasta ári. Frumkvöðlarnir að þessu framtaki eru hjónin Magga og Bergsveinn á Gróustöðum við Gilsfjörð. Fyrir rúmri viku voru þau nánast búin að afskrifa varp arnarhjónanna þetta árið enda hafði assan verið mjög lítið við hreiðrið. Ekki er óvenjulegt að ernir sleppi varpi öðru hverju. En örfáum dögum seinna var assan svo allt í einu búin að verpa. Bergsveinn segir að yfirleitt virðist arnarvarp heldur seinna á ferð að þessu sinni en venjulega.

 

Þessi sömu arnarhjón komu upp einum unga í þessu setri sínu í fyrra og mátti sjá hann við hreiðrið alveg fram undir áramót. Myndavélin hefur verið þar síðan en er hins vegar ekki enn komin í gagnið á ný með viðunandi hætti og kerfið þolir enga umferð eða álag. Tæknimenn eru að vinna í málinu og vonast er til þess að útsendingin komist í lag á allra næstu dögum og jafnvel fyrir helgi.

 

Þá verður samstundis sagt frá því hér á vefnum og settur inn nýr tengill þannig að hægt verður að fylgjast með laupnum og arnarhjónunum meðan legið er á og framvindunni eftir það. Það hefur hins vegar ekkert upp á sig fyrr en tæknin er orðin klár.

 

Ef allt gengur vel hjá arnarparinu verður hægt að fylgjast með því þegar unginn eða ungarnir sjá dagsins ljós í fyllingu tímans og síðan með uppvextinum og uppeldinu. Raunveruleikasjónvarp sumsé. Aðeins spurning um friðhelgi heimilislífsins.

 

Eggin eru jafnan eitt til þrjú en venjulega kemst ekki nema einn ungi á legg hverju sinni. Ernir parast fyrir lífstíð og verpa yfirleitt alltaf í sama setrinu ef það eyðileggst ekki af einhverjum ástæðum.

 

Hreiðrið sem hér um ræðir er einhvers staðar í óteljandi hólmum og eyjum Breiðafjarðar. Ekki er heimilt að gefa upp staðinn öllu nánar.

 

Sjá einnig:

21.08.2008 Loftárás í Gilsfirði

 

Athugasemdir

Hafsteinn, mivikudagur 13 ma kl: 22:08

Hvernig kemst ég á vefmyndavelina til að sjá örnin ?? Ég finn ekkert ??

Ari, sunnudagur 17 ma kl: 15:41

http://webcam.xodus.is/

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30