Ásthildur og Pétur J. Thorsteinsson - minningarhátíð
Hjónin Ásthildur og Pétur J. Thorsteinsson settu á sínum tíma meiri svip á Bíldudal en nokkurt annað fólk hefur gert. Þar verður þeirra minnst á laugardag en 60 ár eru liðin frá því að minnisvarði um þau var reistur á Bíldudal. Hátíðardagskrá hefst á hádegi með ávarpi Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar og fulltrúa afkomenda og fjölbreyttri tónlist. Jafnframt verður haldið ættarmót niðja þeirra og munu þeir m.a. færa Vesturbyggð bækling um starf þeirra í plássinu.
Pétur Jens Thorsteinsson byggði upp verslunarveldi sitt um og eftir 1880 og fylgdi þeirri athafnasemi mikið uppgangstímabil á Bíldudal. Hann gerði út þilskip til fiskveiða og flutningaskip til millilandasiglinga og reisti verslunarhús og íshús, svo nokkuð sé nefnt.
Ásthildur var dóttir sr. Guðmundar Einarssonar, bróður Þóru í Skógum við Þorskafjörð, móður sr. Matthíasar Jochumssonar. Meðal margra barna Ásthildar og Péturs var listmálarinn skammlífi Guðmundur Thorsteinsson, betur þekktur sem Muggur.