Atvinnumálafundur á Reykhólum
Á fimmtudag var á vegum Vestfjarðastofu, undir stjórn Maríu Maack, fundur um atvinnumál í héraðinu, stöðu og horfur. Vestfjarðastofa hefur staðið fyrir slíkum fundum um alla Vestfirði, Aðalefni þessa fundar var nýting þörunga og orkumál.
Fyrirkomulag fundarins var þannig að Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu hélt kynningu á starfsemi hennar og síðan lýsti sveitarstjóri og fulltrúar fyrirtækja stöðu mála, hver á sínu sviði.
Sigríður lýsti því að hjá Vestfjarðastofu er undir einum hatti starfsemi sem var hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Markaðsstofunni, Menningarráði og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Starfsstöðvar Vestfjarðastofu eru á Ísafirði, Þingeyri, Patreksfirði, og Hólmavík og Reykhólum í samvinnu. Allar stöðvarnar hafa mikið samstarf.
Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Reykhólahrepps sagði frá í umfjöllun sinni um orkumál að hafin er undirbúningsvinna við 2 virkjanir í hreppnum; vatnsaflsvirkjun í Múlaá í Gilsfirði, um 690 kW uppsett afl og vindorkugarðinn á Garpsdalsfjalli, sem frumathuganir benda til að geti framleitt 126 MW. Hann fjallaði líka um jarðhitann, en flest fyrirtæki á staðnum byggja á honum að meira eða minna leyti og fyrirsjáanleg er þörf fyrir meira heitt vatn. Það liggur fyrir að það þarf að ganga frá lausum endum varðandi jarðhitaréttindi og nýtingarrétt áður en hægt er að huga að frekari virkjun jarðhita á Reykhólum. Það er orðið aðkallandi að finna meira kalt vatn, en vatnsveitan er fullnýtt á álagstímum og verður væntanlega ráðist í innan tíðar að bora eftir vatni. Tryggvi greindi einnig frá því að nú hillir undir að það verði byggt íbúðarhúsnæði á Reykhólum eftir 10 ára hlé. Að lokum áréttaði hann að á Reykhólum, þar sem svo mikið byggir á vinnslu þörunga ætti að vera þróunarsetur því tengt.
Guðjón Dalkvist, eða Dalli sagði frá framleiðslu sinni á áburðarvökvanum Glæði, sem hann sýður úr klóþangi, en það sækir hann í fjörur hér í sveitinni. Hann greindi frá því að gerðar hafa verið tilraunir með að nota Glæðinn í sjampó.
Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar fór yfir starfsemi hennar í stuttu máli. Verksmiðjan er í meirihlutaeigu DuPont. Öll starfsemi verksmiðjunnar byggir á sjálfbærni og er það skilyrði til að standast vottun sem hún hefur. Fyrir rúmu ári var breytt lögum um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni og er helsta breytingin að nú heyrir þang- og þaraöflun undir Fiskistofu. Afkoma fyrirtækisins er nokkuð góð, en megnið af öllum hagnaði fer í endurnýjun á tækjum og búnaði verksmiðjunnar, en hún er 44 ára. Fyrir nokkrum missirum voru gerðar breytingar á þurrkara verksmiðjunnar og batnaði umtalsvert nýting heita vatnsins sem er notað við þurrkun þangsins.
Kynning á saltverksmiðjunni var í höndum Ingibjargar Erlingsdóttur framleiðslustjóra. Hjá Norðursalti er eimað salt úr sjó. Þegar verksmiðjan var byggð, fyrir 6 árum, var notað affallsvatn frá Þörungaverksmiðjunni við eiminguna og bætt við hitaveituvatni til að halda réttu hitastigi, en vegna þess hve óstöðugt magn og hiti var á affallsvatninu var notkun þess alfarið hætt og eingöngu keypt heitt vatn af Orkubúi Vestfjarða. Nú vantar saltverksmiðjuna meira heitt vatn, það er ein af forsendum þess að geta aukið framleiðsluna eins og fyrirhugað er. Að svo stöddu er það ekki hægt vegna mála hitaveitunnar, sem áður var greint frá. Rekstur Norðursalts gengur vel, en nauðsynlegt er að auka framleiðsluna til að greiða hraðar niður stofnkostnað verksmiðjunnar, eins er hún viðhaldsfrek því búnaðurinn endist illa í saltinu.
Kristín Ingibjörg Tómasdóttir kynnti þaraböðin sem boðið er upp á í Sjávarsmiðjunni og snyrtivörur frá ALGAE NÁTTÚRA, sápur, þara-húðskrúbb o.fl. Fyrirtækið er í eigu fjölskyldunnar, foreldrar Kristínar -eða Dídíar eins og hún er alltaf kölluð- þau Svanhildur Sigurðardóttir og Tómas Sigurgeirsson bændur á Reykhólum stofnuðu það fyrir liðlega 8 árum. Undirbúningur að byggingu baðstaðar við sjóinn hefur staðið í nokkur ár, en að mörgu er að hyggja við uppbyggingu af þessu tagi.
Jamie Lee, sem s.l. haust lauk meistaraprófi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, en þar fjallaði hún um staðbundna vistfræðilega þekkingu á klóþangi í Reykhólasveit, sagði frá rannsóknum og fyrirhuguðum athugunum á ræktun og nýtingu þörunga.
Steindór Haraldsson frá Skagaströnd hefur um áratuga skeið fengist við rannsóknir, og framleiðslu á vörum úr þörungum, hann sagði meðal annars frá samstarfi sínu við bónda á Hjaltlandseyjum sem var jafnframt búskapnum með litla þangverksmiðju. Hann notaði hluta framleiðslunnar í fóðurbæti handa gripunum og var heilsufar þeirra mikið betra, ásamt því sem metangasframleiðsla gripanna minnkaði umtalsvert. Nefndi Steindór þetta sem dæmi um vinnslumöguleika. Hann hefur líka fengist við að framleiða bragðefni í mat úr þörungum.
Að lokum fór María Maack yfir það sem hún hefur verið að gera hjá Vestfjarðastofu, en hún hefur m.a. safnað öllum finnanlegum gögnum um jarðhitann á Reykhólum og í hreppnum, einnig hefur hún verið í athugunum á hagkvæmni hitaveitu á Ströndum.
Hún sagði líka frá að Þórkatla Ólafsdóttir á Patreksfirði er að gera úttekt á landbúnaði á svæðinu, og meiningin er að halda annan sambærilegan fund og þennan, þar sem bændur fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum beint til fulltrúa Vestfjarðastofu.