Tenglar

17. desember 2009 |

Auður kemur í Dalina

Vilborg Davíðsdóttir.
Vilborg Davíðsdóttir.
Sögufélag Dalamanna, Lionsklúbburinn og Dalabyggð standa fyrir söguvöku og bókarkynningu í Auðarskóla í Búðardal kl. 20 í kvöld, fimmtudag. Þar mun Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur flytja erindi um Auði djúpúðgu, landnámskonu í Dölum og ættmóður Laxdæla, og lesa úr nýrri skáldsögu sinni um hana. Sagan sem ber heitið Auður er ein af fimm bókum sem tilnefndar eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2009 í flokki fagurbókmennta. Bókin er þroskasaga mikilhæfrar konu á víkingaöld, tímum mikils umróts og átaka.

 

Auður, dóttir víkingahöfðingjans Ketils flatnefs, vex upp á Suðureyjum við Skotland, ættstór og skapheit. Allt hennar fólk er heiðið en þegar hún kynnist Gilla munki laðast hún bæði að honum sjálfum og boðskap hans um Hvítakrist. Fullveðja er Auður gefin Ólafi hvíta, konungi yfir Dyflinni á Írlandi. Samband þeirra er heitt en stormasamt og vináttan við Gilla munk verður henni að lokum dýrkeypt.

 

Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands en hingað til lands kom hún ekki fyrr en á efri árum. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi og háðu jafnvel blóðuga bardaga innbyrðis. Vilborg Davíðsdóttir er þaulkunnug mannlífi sögutímans og staðháttum á Suðureyjum og Írlandi. Miðaldir eru hennar kjörtími og Auður rís úr djúpi aldanna, sterk og heillandi kona.

 

Vilborg Davíðsdóttir fæddist árið 1965 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún hefur áður gefið út fimm skáldsögur og fjalla þær allar um löngu liðna tíma. Hin síðasta þeirra, Hrafninn, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2005.

 

Hér má finna nokkur brot úr dómum um Auði

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31