Tenglar

19. febrúar 2012 |

Auglýsingaborðar - og fréttir um það sem allir vita

Fyrir jól var bætt við auglýsingaplássi ofan við efstu frétt hér á vefnum. Þetta pláss er til afnota fyrir fólk, félög og fyrirtæki í Reykhólahreppi - án endurgjalds. Jafnframt eru auglýsingaborðar útbúnir ef þess er óskað, líka án endurgjalds. Undir borðunum er hægt að tengja í hvaðeina sem birtist þegar á þá er smellt, hvort heldur það eru fréttir hér á vefnum sem hafa frekari upplýsingar að geyma, efni á öðrum vefjum, skjöl sem vistuð eru hér á vefnum en birtast ekki að öðru leyti, myndskeið o.s.frv.

 

Ítrekað skal, að þessi endurgjaldslausa þjónusta gildir eingöngu fyrir Reykhólahrepp nema þá að viðkomandi hafi sérstök tengsl við héraðið. Þetta nær líka til grannhéraða, enda sé þar ekki um að ræða fyrirtæki í samkeppni við rekstur í Reykhólahreppi.

 

Úr því að ferð fellur, eins og sagt er:

 

Enn á ný skal á það minnt, að eindregið er óskað eftir upplýsingum um viðburði og félagsstarf í Reykhólahreppi til birtingar hér á vefnum - líka þó að allir viðkomandi viti af því! Hér er gott dæmi.

 

En - hvers vegna í ósköpunum að birta á vefnum það sem allir hlutaðeigandi vita?

 

Ástæðan er fremur einföld. Vefur Reykhólahrepps er ekki aðeins fyrir fólkið sem býr í sveitarfélaginu, heldur miklu fleiri. Íbúar Reykhólahrepps eru aðeins nokkur hluti þeirra sem fylgjast reglulega með vefnum - og vilja fylgjast með mannlífinu í héraðinu, í mörgum tilvikum gamla héraðinu sínu. Auk þess eru margir alls ótengdir héraðinu sem fylgjast með. Fréttin um íþróttaæfingar og sundæfingar á vegum Umf. Aftureldingar, sem tengt var í hér ofar, er einfaldlega birt til þess að annað fólk, utan Reykhólahrepps, sjái að hérna er líf og starf.

 

Tekið skal fram, að umsjónarmaður vefjarins veit jafnan lítið af dreifibréfum og fylgist ekki með þeim. Annars er fjölpóstur vissulega prýðileg leið til að ná til fólks innan héraðs. En sé þess yfirleitt óskað, að það sem fram kemur í dreifibréfum birtist líka hér á vefnum, er mælst til þess að haft sé samband við umsjónarmann í tölvupósti (tengill er líka allra neðst til vinstri hér á síðunni) eða síma 892 2240.

 

Það sama gildir um þá sem vilja notfæra sér auglýsingarnar sem fjallað var um hér í upphafi.

 

Með fylgja sem sýnishorn (sjá myndir, smellið á þær til að stækka - flettið) þeir auglýsingaborðar sem birst hafa hér efst á vefnum frá því að þeir komu til sögunnar fyrir réttum tveimur mánuðum. Eins og sjá má geta þeir verið mjög misjafnlega háir. Oft er eitthvað að baki þeim, sem birtist þegar smellt er, en ekki alltaf. Ef smellt er á borða sem ekki er tengdur við neitt gerist ekki annað en að vefsíðan blikkar og birtist aftur óbreytt. Hafi fólk áhuga á því sem fram kemur á þessum borðum er rétt að prófa að smella á þá og sjá hvort eitthvað meira kemur í ljós, jafnvel þótt ekki standi þar Smellið.

 

Stundum eru fleiri en einn inni samtímis (og jafnvel fleiri en tveir) og víxlast þá af handahófi.

 

Tilfærðar skulu tölur um aðsókn að vef Reykhólahrepps frá áramótum (vefteljarinn Google Analytics).

 

Heimsóknir 1. jan. til 18. feb.: 28.859

Meðalfjöldi heimsókna á dag: 589

 

Flettingar 1. jan. til 18. feb.: 123.185

Meðalfjöldi flettinga á dag: 2.514

 

Skv. tölum Hagstofu Íslands var íbúafjöldinn í Reykhólahreppi um áramótin 271. Heimsóknir á vefinn á dag eru þannig að meðaltali talsvert meira en tvöfalt fleiri en hvert mannsbarn í sveitarfélaginu.

 

Ferðaþjónusta er almennt talin einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífs og þénustu á landsbyggðinni. Ein af helstu forsendum þess að sá vaxtarbroddur dafni er „sýnileiki“ héraðsins - í þessu tilviki að fólk viti af hinum víðlenda, fagra Reykhólahreppi og því sem hann hefur að bjóða. Vefurinn er eitt af meðulunum til þess að svo verði.

 

Notendur vefjarins sem eru þessu sammála geta stuðlað að útbreiðslu hans með því að deila fréttum á Facebook. Ekki spillir að læka við fréttir - svo notuð sé íslenska líðandi stundar - þannig að sjá megi að einhverjir fylgist með.

 

Koma svo - deila og læka ... ;)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31