Auglýst eftir athugasemdum við aðalskipulagstillögu
Hér með er auglýst eftir athugasemdum við tillögu að aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006-2018, samanber 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m. síðari breytingum. Skipulagsuppdrætti, greinargerð, umhverfisskýrslu og skýringaruppdrætti má skoða og lesa hér í tveimur pdf-skjölum:
Aðalskipulag 2006-2018 - Forsendur - ágúst 2008
Aðalskipulag 2006-2018 - Tillaga - ágúst 2008
Einnig má finna þessi skjöl í valmyndinni hér til vinstri undir Stjórnsýsla > Aðalskipulag. Þar er líka að finna gögn af fyrri stigum til samanburðar fyrir þá sem þess óska. Vakin skal athygli á því, að skjalið með tillögunni er mjög stórt (6,46 MB) og tekur því nokkra stund að hlaða því inn.
Gögnin liggja auk þess frammi á skrifstofu Reykhólahrepps, Maríutröð 5a, Reykhólum, frá 25. ágúst til 7. október 2008, og hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík.
Athugasemdum skal skila skriflegum til skrifstofu Reykhólahrepps, Maríutröð 5a, 380 Reykhólar, merktum Aðalskipulag, fyrir 7. október 2008. Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests teljast samþykkir tillögunni. Samtímis er auglýst tillaga að niðurfellingu Svæðisskipulags Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu.
24. ágúst 2008
Sveitarstjórinn í Reykhólahreppi
Óskar Steingrímsson
Þórður Arason, mivikudagur 03 september kl: 20:23
Kópavogi, 3. september 2008
Athugasemdir við skipulagstillögu: Reykhólahreppur, aðalskipulag 2006-2018, ágúst 2008.
1. Fornleifar (bls. 59). Í töflu er lið þ13 lýst m.a. svo: "a. Hin forna Ingjaldsbæjarrúst; hún er að nokkru leyti að baki núverandi bæ. b. Ingjaldsbyrgi, er svo heitir; það er við hæð eina fyrir sunnan bæinn." Ekki er ljóst við hvaða íbúðarhús (bæ) er átt, en a.m.k. þrjú íbúðarhús voru í Hergilsey á fyrri hluta 20. aldar. Í dag er ekkert uppistandandi hús í Hergilsey og því hefur hugtakið "núverandi bær" litla merkingu.
2. Um ofanflóðahættu (bls. 65). Farið er ónákvæmt með nafn á reglugerð: "reglugerð um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð staðbundins hættumats (nr. 495/2007)." Reglugerð nr. 495/2007 var breyting á reglugerð nr. 505/2000, sem heitir eftir breytingu: "Reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða."
3. Byggingarár Flateyjarkirkju (bls. 75). Sagt er í töflu að Flateyjarkirkja hafi verið byggð 1927. Þetta mun ekki vera rétt. Víða má finna heimildir um að hún hafi verið byggð 1926 (sjá t.d. Eylendu I, bls. 190-191) og vígð 19. desember 1926.
4. Hafnarsvæði í Flatey (bls. 79). Í töflu eru nefnd tvö hafnarsvæði í Flatey: Ferjubryggja og bátavör við Teinæringsvog. Við Teinæringsvog er stórt bátaskýli og vogurinn nýttur til að sjósetja báta og taka þá á land, en vogurinn er þó lítið notaður sem vör, nema í hvössum NA-áttum. Nefna mætti einnig Glýluvog, Vesturbúðavör, Þýskuvör og Nýjuvör. Þá er aðalbátalægi Flateyinga í Höfninni/Hafnarey, sem er gíglaga eins og skeifa og veitir skjól í öllum áttum, norðan við Plássið í Flatey.
5. Teinæringsvogur (bls. 80). Undir mynd 17 segir að Teinæringsvogur sé í forgrunni. Þetta er rangt, því vogurinn á myndinni heitir Grýluvogur. Teinæringsvogur er utan/vestan við Vesturbúðir og sést ekki á myndinni.
6. Samgöngur í Flatey (bls. 86). Undirkaflinn "3.15 Samgöngur" í kaflanum "3 Þéttbýlið á Reykhólum og Flatey" fjallar einungis um samgöngur í þéttbýlinu á Reykhólum. Full þörf er á að fjalla í aðalskipulaginu um samgöngumál í Flatey, bæði um ferjusiglingar og viðhald akvegarins í Flatey.
7. Vatnsveita í Flatey (bls. 88). Við lestur kafla um vatnsveitu á Reykhólum og í Flatey mætti halda að sveitarstjórn reki vatnsveitu í Flatey. Svo er ekki, en þar er hins vegar einkarekin vatnsveita, sem er nokkuð á skjön við lög um vatnsveitur. Rétt er að fagna því að sveitarstjórn hyggist reka vatnsveitu þar og Flateyingar "njóti nægjanlegs og góðs neysluvatns".
Þórður Arason
Hlíðarvegi 13
200 Kópavogi
arason@vedur.is
Tenging við Reykhólahrepp:
Ættaður úr Hergilsey og Flatey
Á hús með ættingjum í Flatey