Tenglar

12. maí 2015 |

Auglýst eftir gömlum myndum

Forsetahjónin á Reykhólum sumarið 1957. Eigandi myndar: Örn Elíasson.
Forsetahjónin á Reykhólum sumarið 1957. Eigandi myndar: Örn Elíasson.
1 af 2

„Mig langar svo að reyna safna saman gömlum ljósmyndum af sem flestum hreppsnefndum hér í sveit, og ekki bara frá þessum sameinaða hreppi heldur líka gömlu hreppunum áður en allt var sameinað hér*. Mig langar að setja flottar myndir í ramma og hengja upp hérna á skrifstofunni,“ segir Björk Stefánsdóttir á skrifstofu Reykhólahrepps. „Líka væri gaman að auglýsa eftir myndum frá merkilegum atburðum hér í sveitum.“

 

Undir þetta skal tekið heils hugar og hér með er auglýst eftir myndum eins og Björk talar um. Hægt er að senda innskannaðar myndir á netfangið skrifstofa@reykholar.is og líka má koma myndum til Bjarkar til innskönnunar. Æskilegt er að sem bestar upplýsingar fylgi myndum, eftir því sem þær kunna að liggja fyrir. Myndir sem berast yrðu líka birtar hér á vef Reykhólahrepps.

 

Hér má finna nánari upplýsingar um myndina sem fylgir og skoða jafnframt ýmsar fleiri sem Örn Elíasson læknir frá Reykhólum varðveitir.

 

*) Núverandi Reykhólahreppur varð til árið 1987 við sameiningu hreppanna fimm í Austur-Barðastrandarsýslu, Geiradalshrepps, Reykhólahrepps, Gufudalshrepps, Múlahrepps og Flateyjarhrepps (Eyjahrepps), sem var á sínum tíma langfjölmennastur þeirra.

 

Athugasemdir

Hlynur Þór Magnússon, fimmtudagur 14 ma kl: 14:54

Bætti hér við (mynd nr. 2) ljósmynd frá samsæti sem Sveini Björnssyni, forseta Íslands, var haldið í tjaldi í Djúpadal í Gufudalssveit 24. ágúst 1945 eða fyrir 70 árum núna í sumar (var með myndina en fékk dagsetninguna í gær frá embætti forseta Íslands). Þetta var árið eftir að Sveinn var kjörinn fyrsti forseti Íslands 17. júní 1944. Björn Jónsson ritstjóri, annar Íslandsráðherrann á eftir Hannesi Hafstein, fæddist í Djúpadal og átti þar sín æskuár. Heimafólk í héraði vildi halda Sveini forseta hóf í Króksfjarðarnesi, en hann vildi lengra vestur á sínar ættarslóðir. Þá var ekki bílvegur nema að Kollabúðum og var farið þaðan hrossríðandi í Djúpadal. Maðurinn sem þarna flytur ávarp er Óskar Arinbjarnarson á Eyri í Kollafirði (afi Jóns Gnarr).

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31