Auglýst eftir verslunarrekendum á Reykhólum
Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum í gær að auglýsa eftir rekstraraðila til að taka að sér rekstur matvöruverslunar að Hellisbraut 72 á Reykhólum. Jafnframt fól sveitarstjórn oddvita og sveitarstjóra að ganga til samninga við eigendur Hólakaupa um kaup á tækjum og búnaði sem nauðsynlegur er til áframhaldandi reksturs verslunar á Reykhólum. Verslunarhúsið sjálft er í eigu Reykhólahrepps.
Í fundargerð sveitarstjórnar kemur fram, að undir liðnum Rekstur verslunar á Reykhólum hafi mætt á fundinn Eyvindur S. Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir, fráfarandi rekstraraðilar Hólakaupa, og farið hafi verið yfir málefni verslunar á staðnum eftir lokun Hólakaupa.
Reykhólahreppur þakkaði Ólafíu og Eyvindi góða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Málfríður Vilbergsdóttir, laugardagur 10 janar kl: 19:25
Ég vil þakka þeim hjónum fyrir frábæra þjónustu. Það er mikil eftirsjá af þeirra starfi við verslunina. Gangi ykkur vel með ný verkefni. Málfríður Hríshóli