Tenglar

29. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Aukagöngur því að nátthaginn opnaðist

Tómas Sigurgeirsson og hundurinn Guðlaugur í fjárhúsunum. Myndin var tekin á liðnum vetri.
Tómas Sigurgeirsson og hundurinn Guðlaugur í fjárhúsunum. Myndin var tekin á liðnum vetri.

„Það hefur nú gengið misbrösuglega að smala vegna rigninga og þoku, en það hafa komið góðir dagar inn á milli. Heimturnar eru frekar slæmar á flestöllum bæjum í héraðinu. En seinni leitirnar eru eftir, þær eru um næstu helgi. Svo urðum við fyrir því óláni þegar við smöluðum í Kinnarstaðarétt um fyrri helgi, að nátthaginn opnaðist um morguninn. Þess vegna urðum við að taka aukagöngur á stóru svæði á sunnudagsmorgun, alveg upp í Vaðalfjöll,“ segir Tómas Sigurgeirsson (Tumi), bóndi á Reykhólum.

 

„Við erum núna búnir að berjast við að smala tvo daga í röð seinni leit norður í Djúpi, bæði í gær og fyrradag, frá Hvannadal að Húsadal, og náðum fimmtíu og þremur hausum, allt saman úr Reykhólahreppi. Þetta er allt of stórt svæði fyrir fáa,“ segir hann.

 

– Hvernig kemur féð undan sumri?

 

„Það er bara mjög fínt, bæði vænt og ótrúlega lítið feitt, þannig að kjötið er mjög gott. Það vantar bara betra veður.“

 

– Hvernig er það hér, kemur margt fólk að sunnan og annars staðar að til að liðsinna í leitunum, líkt og tíðkast t.d. í Djúpinu hjá Jóhönnu í Svansvík og Indriða á Skjaldfönn?

 

„Já, skyldfólk og vinir koma alltaf, múgur og margmenni. Fólk nýtist í fyrirstöðu og slíkt fyrir utan sjálfar leitirnar þó að það sé ekki alveg fullgildir smalar. Maður er mjög þakklátur fyrir alla þessa aðstoð. Við erum nú kannski ekki eins vinsælir hér og Jóhanna í Svansvík. En við hér smölum með henni, því að leitirnar skarast beggja vegna.“

 

Tumi hefur verið bóndi á Reykhólum hátt í fjóra áratugi. „Ég tók við búinu hérna 1977, þannig að maður hlýtur að teljast þó nokkuð góður!“ segir hann og hlær.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31