Aukin sala á öllum tegundum kjöts
Sala á kindakjöti var fjórðungi meiri fyrstu þrjá mánuði þessa árs en á sama tímabili á síðasta ári. Sala á íslensku nautakjöti jókst litlu minna. Sala jókst á öllum tegundum kjöts fyrstu þrjá mánuði þessa árs, samkvæmt yfirliti Matvælastofnunar um framleiðslu og sölu búvara. Hluti skýringarinnar er talinn vera að hluti páskasölunnar á síðasta ári kom fram í aprílmánuði, en öll kjötsalan fyrir páskana núna í ár var í mars. Þannig má skýra 5-6% söluaukningu á alifugla- og svínakjöti og væntanlega samsvarandi aukningu á sölu kindakjöts.
Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda og Markaðsráðs kindakjöts, segir í samtali við Morgunblaðið í dag, að því til viðbótar komi raunveruleg söluaukning, enda hafi sala á kindakjöti aukist um 25,1% á milli ára.
„Það helgast bæði af því að fólk er að gera sér betur grein fyrir því hversu hrein og góð vara þetta er og vonandi er sú vinna sem við höfum lagt í markaðssetningu, sérstaklega til erlendra ferðamanna, farin að skila sér,“ segir Svavar.
Hann hefur af þessu tilefni kannað stöðuna hjá helstu kjötsölum og segir að mjög gott hljóð sé í þeim gagnvart sölu á lambakjöti um þessar mundir.
Alifuglakjöt er vinsælasta kjötið með 32% hlutdeild. Kindakjötið er á ný komið fram úr svínakjötinu, með 26% markaðshlutdeild. Svínið er með tæp 25%.