Báðir bílarnir samtímis í útkalli tvo daga í röð
Nauðsyn veru beggja sjúkrabifreiða sem nú eru til staðar í Búðardal hefur sannað sig enn á ný, segir á vefnum Búðardalur.is, en þær voru báðar kallaðar út á sama tíma bæði á miðvikudag og fimmtudag. Í báðum tilfellum var annar bíllinn í hefðbundnum sjúkraflutningi þegar bráðaútkall kom á sama tíma og því hefði verið mjög bagalegt að hafa þá ekki hinn til taks, hefur vefurinn eftir sjúkraflutningamanni í Búðardal.
Bráðaútkallið á fimmtudag var vegna vélsleðaslyssins efst í Töglunum á leiðinni upp á Þorskafjarðarheiði, sem hér hefur verið greint frá.
Myndirnar sem hér fylgja eru af vef Landhelgisgæslunnar og má hér sjá nokkrar fleiri sem teknar voru í þessari ferð þyrlunnar vestur í Reykhólasveit á fimmtudag.
Sjá einnig:
► 24.11.2013 Fagna því að áfram verði tveir sjúkrabílar í Búðardal