Tenglar

5. apríl 2016 |

Bæði reynsla og ferskt blóð í stjórninni

Arnar Árnason. Ljósm. Bændabl. / smh.
Arnar Árnason. Ljósm. Bændabl. / smh.

„Búgreinin stendur á tímamótum með nýjum búvörusamningi og breyttum neysluvenjum. Það eru bæði ógnanir og mikil tækifæri í íslenskri mjólkurframleiðslu. Ég er búinn að vera bóndi í fimmtán ár og langaði að bjóða starfskrafta mína fram á þessum vettvangi,“ segir Arnar Árnason, bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði, nýkjörinn formaður Landssambands kúabænda. Hann segist vilja hafa áhrif á hvernig uppbyggingunni verði hagað til framtíðar, jafnt gagnvart bændunum sjálfum, neytendum, landinu og ímynd greinarinnar.

 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í gær. Þar segir einnig m.a.:

 

Arnar og kona hans, Ásta Arnbjörg Pétursdóttir frá Hranastöðum, eru búfræðingar. Hann er einnig iðnaðartæknifræðingur af matvælasviði og hún er fjölskyldumeðferðarfræðingur. Hann lýsir því hvernig það atvikaðist að þau hófu búskap:

 

„Ég var kominn með skólavist í Danmörku til að ljúka mastersnámi í iðnaðarverkfræði en þá breyttust aðstæður vegna veikinda tengdaföður míns og jörðin var til sölu. Við ákváðum að gera hlé á námi og prófa búskap í tvö ár. Það var klárt að árin yrðu tvö og staðan síðan tekin en þau eru nú orðin fimmtán,“ segir Arnar.

 

Þau Arnar og Ásta búa stórbúi á Hranastöðum. Mjólka liðlega 100 kýr og hafa meira en tvöfaldað gripafjöldann frá því þau tóku við og hafa einnig tæknivætt búið. 

 

Arnar var í hópi bænda sem gagnrýndu þau áform forystumanna bænda og ríkisins að leggja af framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu við gerð búvörusamninga. Þau sjónarmið áttu hljómgrunn meðal bænda og forystan ákvað að breyta um stefnu. Niðurstaðan varð sú að ákvörðun um framtíð mjólkurkvótans verður lögð í almenna atkvæðagreiðslu meðal kúabænda eftir þrjú ár. Arnar telur að framleiðslustýring sé nauðsynleg í mjólkurframleiðslunni. Það sé aðallega vegna þess hversu markaðurinn er viðkvæmur og lítill.

 

„Það er klárt að ég er formaður allra kúabænda. Mitt hlutverk og stjórnarinnar allrar er að sætta sjónarmið, ef þau eru mjög á skjön. Í þessum félagasamtökum eru um 1.200 manns og verða menn aldrei alveg sammála. Ákvarðanir eru teknar með hag greinarinnar að leiðarljósi og reynt að taka tillit til sem flestra sjónarmiða. Ég tel mig hafa sterkt bakland eftir sigur í formannskjörinu. Með hinum stjórnarmönnunum kemur bæði reynsla og ferskt blóð auk þess sem fulltrúi nautakjötsframleiðenda tekur nú sæti í stjórn,“ segir Arnar.

 

LK: Arnar kjörinn formaður

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31