Tenglar

16. nóvember 2012 |

Bækur sem tengjast Reykhólahreppi á bókamessu

Vestfirska forlagið verður með dagskrár bæði á laugardag og sunnudag á „bókamessunni“ í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina. Á laugardag kl. 14-15 verður í Kaffihúsinu í Ráðhúsinu dagskrá sem ber yfirskriftina Mishlýjar örsögur að vestan og á sunnudag kl. 13 hefst í matsalnum á 1. hæð dagskrá þar sem lesið verður úr nokkrum af nýju bókunum frá forlaginu. Ýmsar þeirra tengjast Reykhólahreppi, ýmist að öllu leyti eða meira og minna.

 

Undir liðnum Mishlýjar örsögur að vestan á laugardag munu vestfirskir sagnamenn hafa ofan af fyrir gestum með sönnum vestfirskum lygasögum. Með í för verður heiðursgestur Vestfirska forlagsins, Jóhannes Kristjánsson eftirherma frá Brekku
á Ingjaldssandi, sem mun kæta lund bókamessugesta. Jafnframt ætlar Guðmundur Hagalín frá Hrauni á Ingjaldssandi að taka lagið á nikkuna.

 

Á sunnudag verða eftirtaldar bækur forlagsins kynntar og lesið upp úr þeim:

  • Finnbogi Hermannsson: Vestfirskar konur í blíðu og stríðu
  • Guðrún Ása Grímsdóttir: Vatnsfjörður í Ísafirði
  • Reynir Ingibjartsson: Æviminningar Kristínar Dahlstedt veitingakonu
  • Lýður Björnsson: Þar minnast fjöll og firðir. Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna
  • Lárus Jóhannsson: Andvaka. Lífshlaup og ljóð Tómasar Guðmundssonar Geirdælings hins víðförla
  • Auk þess kemur leynigestur í heimsókn

 

Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík - Bókmenntaborg UNESCO halda nú bókamessu í Bókmenntaborginni Reykjavík í annað sinn. Að þessu sinni verður dagskráin öll í Ráðhúsi Reykjavíkur. Bókamessan verður opin kl. 13-18 báða dagana.

 

Útgefendur sýna nýjar bækur og boðið verður upp á fjölbreytta bókmenntadagskrá og þarna gefst því einstakt tækifæri til að kynna sér litskrúðuga bókaflóru ársins, segir í kynningu. Lesendum gefst einnig færi á að spjalla við höfunda því að fjölmargir þeirra verða á svæðinu og munu sumir þeirra bjóða upp á áritanir.

 

Dagskrá Bókamessu í Ráðhúsi Reykjavíkur 2012

Útgáfubækur Vestfirska forlagsins 2012

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31