Tenglar

26. febrúar 2012 |

„Bændur gera Ísland að ríkara og betra landi“

Íslenskir bændur geta og vilja. Íslenskur landbúnaður hefur sýnt styrk sinn og mikilvægi. Frá efnahagshruni hefur beinum störfum í landbúnaði fjölgað um 10%, miðað við atvinnutölur í byrjun árs 2008 og til dagsins í dag. Landbúnaðurinn er mikilvægur hluti af atvinnulífi landsins. Hann er burðarásinn í atvinnu fjölmargra landshluta. Í flestum landshlutum er um fimmta hvert starf landbúnaðartengt og sums staðar er þriðja hvert starf samofið landbúnaðinum.

 

Þetta sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, í setningarræðu á Búnaðarþingi í dag, undir kjörorðinu Áfram íslenskur landbúnaður. Hér fara á eftir nokkrar glefsur úr ræðunni.

 

Undanfarin ár hafa afurðir landbúnaðarins hækkað minna í verði en innfluttur matur. Það er nú staðfest að innlend búvöruframleiðsla er eitt af því sem tryggir samkeppni á matvörumarkaði.

 

Þetta höfum við getað gert þrátt fyrir miklar breytingar í umhverfi okkar. Sem dæmi hefur áburður hækkað í verði um 330% á síðustu fimm árum.

 

Á sama tíma berast fréttir um hækkandi matarverð um alla heimsbyggð. Nú spáir FAO enn meiri verðhækkun á mat í heiminum. Ástralskur fyrirlesari sem heimsótti okkur í haust, Julian Cribb, sagði okkur á athyglisverðum fundi um fæðuöryggi að við þyrftum að huga að stöðu okkar, að matarbirgðum, kornbirgðum, orku og ekki síst að hlúa að bændunum.

 

Ég er stoltur af starfi bænda og aðlögunarhæfni landbúnaðarins sem við þessar aðstæður sýnir styrk sinn. Ég er stoltur af því að vera í forsvari atvinnugreinar sem getur átt svo mikil tækifæri og hefur sannað gildi sitt. Bændur gera Ísland að ríkara og betra landi að lifa og starfa í.

 

– – –

 

Hver eru sóknartækifærin sem liggja við götu okkar? Ég nefni hér nokkur þeirra:

  • Aukum framleiðslu á matvælum. Búum okkur undir að framfylgja stefnumörkun stjórnvalda um að auka innlenda matvælaframleiðslu fyrir árið 2020. Við flytjum of mikið inn af mat sem við gætum framleitt hér á landi.
  • Flytjum meira af framleiðslu á korni til landsins, sækjum fram með framsækna og fjölbreyttari jarðrækt.
  • Landbúnaðurinn getur skipt sköpum í að auka sjálfbærni landsins með eigin eldsneytisframleiðslu. Við erum á krossgötum í orkumálum og víðast hvar um heiminn leika bændur þar stórt hlutverk.
  • Innan núverandi búgreina liggja spennandi tækifæri á markaði, með sérhæfingu, fjölbreytni og meiri gæði að leiðarljósi.
  • Við eigum skóga sem skila okkur vaxandi verðmætum.
  • Íslenski hesturinn á mikla möguleika enda þekktasti Íslendingurinn í víðri veröld.
  • Tækifæri liggja í minkarækt.
  • Ferðaþjónusta bænda, sem á árinu fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands, er tákn um glæsilegan árangur – til hamingju íslenskir ferðaþjónustubændur. Þið hafið sýnt hvernig hægt er að nýta tækifærin.

 

Af þessari upptalningu sést að tækifærin byggjast á íslensku bújörðinni. Bújörðin er ein af auðlindum þessa lands. Umgjörðin um hana þarf að vera sterk og að sama skapi þarf umgjörð um landbúnaðinn að vera skýrt mótuð og horfa til langs tíma.

 

En við fjölgum ekki störfum í landbúnaði eða aukum verðmæti hans með sama viðhorfi og verið hefur undanfarin mörg ár, sem nefna má hugarfar tómlætis eða sinnuleysis.

 

– – –

 

Ég lýsti áðan góðum samhljómi milli bóndans og þjóðarinnar.

 

Bændasamtökin hafa með verkum sínum, í samfélaginu og í samstarfi við stjórnvöld, sýnt að þau taka ábyrga afstöðu. Skilaboð okkar eru:

 

Íslenskir bændur sitja ekki á búum sínum af annarri ástæðu en að með búskap sínum gera þeir gagn. Þeir yrkja jörðina, þeir breyta auðlindum hennar í verðmæti sem undirbyggja lífskjör okkar. Þeir gera Ísland að ríkara landi til að búa í.

 

Bændasamtökin vilja vekja athygli á sóknarfærum í sjálfbærri orkuframleiðslu sem getur, ef vel er á haldið, fært okkur nýja orkumiðla.. Um það þurfum við gott samstarf, og alvöru átak af hendi stjórnvalda.

 

Bændur, samtök þeirra og fyrirtæki, þurfa að vinna saman. Landbúnaðurinn hefur vaxið og skapað ný störf.

 

Bændur þurfa sterka umgjörð, stöðugleika og samstarf við þjóðina til að geta byggt sterkar sveitir sem draga að ferðamenn, innanlands og að utan. Íslenska bújörðin er eins og vatnið, jarðhitinn, fallorkan og fiskimiðin, grunnur að hagsæld okkar allra.

 

Við þurfum að rétta hlut menntastofnana landbúnaðarins og virða þær til jafns við aðrar menntastofnanir landsins.

 

Bændur, það er okkar að skapa og það er okkar að gæða landið lífi. Við getum og viljum vera hluti af þeirri viðspyrnu sem þjóðin þarf. Við skulum stækka landbúnaðinn. Einhver sagði „opnum stækkunarstofu íslensks landbúnaðar“ – það er góð hugmynd.

 

En við segjum í þessum sal: Áfram íslenskur landbúnaður.

 

Setningarræðu Haraldar Benediktssonar í heild má finna hér, svo og annað efni frá Búnaðarþingi 2012.

 

Vefur Bændasamtaka Íslands

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31