Tenglar

24. febrúar 2017 | Umsjón

Bankarnir halda verði niðri á landsbyggðinni

Húsnæðisskortur er í sumum minni bæjum en þrátt fyrir það er húsnæðisverð oft þriðjungur af því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Í öðrum þorpum standa fjölmörg hús á sölu óhreyfð um árabil. Eftir stendur spurningin hvers vegna ungt fólk leggur ekki land undir fót og kaupir sér sína fyrstu eign í minni byggðarlögum, í stað þess að vera fast á leigumarkaði eða þurfa að sætta sig við lakari húsakost á höfuðborgarsvæðinu en vonir stóðu til.

 

Þannig hefst fréttaskýring Snærósar Sindradóttur í Fréttablaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:

 

„Þar sem er erfitt að selja íbúðir, þorir fólk ekki að kaupa íbúðir,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar. „En víða er alveg ofboðsleg eftirspurn eftir leiguhúsnæði og það er ekki jafn mikill munur á verði á leigumarkaðnum á mörgum minni stöðum samanborið við leiguverð á höfuðborgarsvæðinu.“

 

Á Bíldudal í Vesturbyggð hefur um nokkra hríð verið uppgangur. Svo er komið að fasteignaskortur er á svæðinu. Það virðist þó ekki leiða til hækkunar fasteignaverðs og lögmálið um framboð og eftirspurn á því ekki við.

 

„Bankarnir, sérstaklega Íbúðalánasjóður, hafa verið rosalega tregir. Ef þú kemur með kaupsamning sem er með hærra verði en hugmynd bankans um hvað hús á þessu svæði kostar, þá neita þeir að viðurkenna hann. Vítahringurinn sem þú situr svo fastur í, er að á meðan fasteignaverðið er lægra en byggingakostnaðurinn, þá byggir enginn.“

 

Þóroddur nefnir dæmi um útgerð á Raufarhöfn sem réð til sín 20 starfsmenn en síðan var ekki nægt húsnæði á staðnum. Mörg hús stóðu auð en eru nýtt sem sumarhús.

 

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi sveitarstjóri í Vesturbyggð, nefnir dæmi um fasteignakaup á Bíldudal.

 

„Jafnvel þó komið væri á samkomulag á milli seljanda og kaupanda upp á 20 milljónir, þá sagði bankinn að honum þætti húsið ekki meira virði en 15 milljónir og lánaði þá bara fyrir því.“

 

Undanfarið hafa ýmis störf verið auglýst í Vesturbyggð en húsnæðisskortur er viðvarandi. „Það er dálítið erfitt að horfa upp á að það vantar húsnæði fyrir íbúa, en á meðan sjáum við góð fjölskylduhús notuð sem sumarhús í eina til tvær vikur á ári.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31