Tenglar

2. ágúst 2014 | vefstjori@reykholar.is

Bar opinn allt árið á Báta- og hlunnindasýningunni?

Harpa Eiríksdóttir á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum.
Harpa Eiríksdóttir á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum.

Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum er núna í sumar opin í núverandi mynd fjórða sumarið í röð eftir að hlunnindin og bátarnir voru sameinuð í eina sýningu. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð ferðafólks og kaffihús og minjagripasala og húsnæðið líka notað fyrir ýmsa viðburði. Nefna má bíósýningar og Menningarsjokk (pubquiz og tónleika Spaðanna) á nýliðnum Reykhóladögum.

 

Harpa Eiríksdóttir ferðamálafræðingur, þáverandi ferðamálafulltrúi Reykhólahrepps, tók að sér að annast sýninguna þegar hún var opnuð í hinni nýju mynd og hefur verið framkvæmdastjóri hennar síðustu árin.

 

Aðsóknin í sumar hefur verið með ágætum, að sögn Hörpu, og mjög mikið um erlenda ferðamenn. Íslendingar virtust hins vegar vera nokkuð mikið að horfa á HM meðan það stóð yfir. „En núna eru þeir mættir og skemmtilegt að sjá hvað það eru margir hérna yfir verslunarmannahelgina, flestöll tjaldsvæði í héraðinu að verða full, enda höfum við veðrið til þess,“ segir Harpa.

 

„Ég hef ekki tekið saman tölurnar um gestafjölda en ef maður horfir á innkomuna það sem af er sumri getum við ekki annað en verið ánægð, hún eykst ár frá ári enda erum við ávallt að finna nýjar leiðir til að auka hana. Til dæmis með því að vera með Menningarsjokk núna á Reykhóladögum, þar var tilraun hjá okkur að sjá hvernig væri að hafa bar á Reykhólum. Það gekk svo vel að við stefnum á að ná okkur í vínveitingaleyfi fyrir haustið þannig að við getum bætt við þá afþreyingu sem er í boði hér fyrir sveitunga yfir veturinn,“ segir hún.

 

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á sýningunni undanfarin tvö ár. „Við opnuðum kaffihús hérna í fyrra sem hefur verið vel sótt, skemmtilegt að hafa fjölbreytta afþreyingu og þjónustu á einum stað. Líka er minjagripabúðin orðin mjög vinsæl og gaman að ekki aðeins ferðafólk heldur líka sveitungarnir skuli koma til að kaupa tækifærisgjafir,“ segir Harpa Eiríksdóttir.

 

Eitt sem hafa má til marks um aukin umsvif og aukinn gestafjölda er að núna í sumar eru þrír starfsmenn á Báta- og hlunnindasýningunni, en sumarið 2011 var Harpa ein með hana. „Frábært að geta stuðlað að fjölbreyttu atvinnulífi í héraði,“ segir hún.

 

Hlunnindasýningin á Reykhólum og aðstaða fyrir Bátasafn Breiðafjarðar voru í nokkur ár aðskilin með steinvegg í Mjólkurbúinu gamla á Reykhólum og raunar engin tengsl þar á milli. Framan af ári 2011 var allt hreinsað innan úr húsinu og stórt op gert á steinvegginn sem aðskildi bátana og hlunnindasýninguna og ný heildstæð sýning hönnuð og byggð upp frá grunni. Hitann og þungann af því verki bar Hjalti Hafþórsson á Reykhólum. Upphafsmenn bátasafnsins voru frændurnir Aðalsteinn Aðalsteinsson og Aðalsteinn Valdimarsson úr Breiðafjarðareyjum, sem núna eru báðir nýlega látnir.

 

Tengdar fréttir:

10.06.2012 Menningarstyrkir veittir undir nýjum formerkjum

30.06.2011 Sýningin á Reykhólum formlega opnuð

04.06.2011 Opna húsið á Reykhólum: Á annað hundrað gestir

31.05.2011 Verkalok í Mjólkurbúinu á Reykhólum - myndir

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29