Tenglar

8. nóvember 2011 |

Baráttuvefur opnaður á degi gegn einelti

Verkefnisstjórn aðgerða gegn einelti, sem skipuð er fulltrúum nokkurra ráðuneyta, stendur að sérstökum degi gegn einelti í dag, þann 8. nóvember. Hún var skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í fyrrasumar. „Einelti spyr ekki um aldur, þjóðfélagshópa eða kyn og það þrífst einfaldlega alls staðar þar sem það er látið viðgangast. Ábyrgð okkar allra er því mikil og það er í okkar höndum að vinna bug á þessu þjóðfélagsmeini. Það er ekki flókið ef allir taka höndum saman og sammælast um ákveðna sátt, þjóðarsáttmála um jákvæð samskipti“, segir á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.

 

Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Forsætisráðherra er verndari átaksins og munu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrita sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum. Við undirritunina verða afhent gul armbönd sem gerð hafa verið í tilefni dagsins og bera yfirskriftina Jákvæð samskipti. Þeim verður dreift til almennings eftir því sem upplag endist.

 

Vefurinn www.gegneinelti.is verður opnaður í dag og þar gefst fólki kostur á að undirrita framangreindan sáttmála, sem er á þessa leið:

 

  • Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti
  •  
  • Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og allra hópa sem eiga sér hvorki málsvara né sterka rödd. Við munum öll, hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.

 

Verkefnisstjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök sem starfa á vettvangi þessa átaks til að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti. Sérstaklega er þessu beint til leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva auk vinnustaða og stofnana. Ýmislegt er að hægt að gera í tilefni dagsins, svo sem að halda upp á hann með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu.

 

Verkefnisstjórnin vonast til að sem flestir í samfélaginu skrifi undir þjóðarsáttmálann og taki þátt í því að setja umræðuna um einelti í brennidepil þennan dag - málefnið er brýnt og til mikils að vinna ef í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála um jákvæð og uppbyggileg samskipti.

 

Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum, júní 2010

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31