Barnaleikrit með söngvum á Hólmavík
Núna kringum áramótin sýnir Leikfélag Hólmavíkur leikritið Gott kvöld eftir Áslaugu Jónsdóttur. Þetta er barnaleikrit með söngvum fyrir gesti á öllum aldri og leikarar alls 22, flestir á grunnskólaaldri en reynsluboltar úr félaginu taka einnig þátt í sýningunni. Í leikritinu segir frá hugmyndaríkum strák sem er aleinn heima um kvöld með bangsa sér til halds og trausts þegar pabbi skreppur að sækja mömmu. Fjölmargar furðuskepnur koma í heimsókn, meðal annarra hungurvofa og hrekkjusvín, hræðslupúki og letihaugur, þannig að stráksi og bangsi hafa í nógu að snúast. Leikstjóri er Kristín Sigurrós Einarsdóttir, formaður Leikfélags Hólmavíkur.
Leikritið hlaut tilnefningu til Grímuverðlaunanna árið 2008 sem besta barnaleikritið.
Frumsýning verður í félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20 annað kvöld, 29. desember. Síðan verða sýningar 30. desember, 4. janúar og 6. janúar og alltaf kl. 20. Miðapantanir hjá Ingibjörgu Sigurðardóttur í síma 847 4415.
Meðfylgjandi myndir tók Jón Jónsson á æfingum.