3. desember 2012 |
Barnaspítalinn: Góður stuðningur úr Reykhólahreppi
Athygli vakti hjá þeim sem stóðu að skákmaraþoninu í Kringlunni í Reykjavík á föstudag og laugardag til fjáröflunar fyrir Barnaspítala Hringsins og til brýnna tækjakaupa fyrir hann, hversu myndarlegur stuðningur barst úr Reykhólahreppi. Hreppurinn sjálfur lagði fram 20 þúsund krónur og þrjú fyrirtæki að auki sömu upphæð hvert, auk þess sem framlög upp á nokkra tugi þúsunda bárust frá einstaklingum sem vilja ekki láta nafna sinna getið. Fyrirtækin eru Kolur ehf. (Gunnbjörn Óli Jóhannsson á Kinnarstöðum), Þörungaverksmiðjan hf. og Hótel Bjarkalundur.
Á myndinni er Friðrik Ólafsson stórmeistari, öflugasti skákmeistari Íslendinga fyrr og síðar, í Kringlunni á laugardag að tefla gegnum netið með aðstoð tæknimanns.