Bátadagar á Breiðafirði 2. júlí: Farið í Akureyjar
Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum gengst nú fyrir hátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í níunda sinn þann 2. júlí. Eigendur trébáta eru hvattir til að mæta með báta sína. Í ár er gert ráð fyrir þægilegri og stuttri dagleið þannig að litlir bátar ættu ekki að eiga í neinum vandræðum að vera með.
Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir síðan:
Föstudagur 1. júlí. Safnast saman.
Ráðgert er að þátttakendur safnist saman á Reykhólum föstudaginn 1 júlí. Flóð er um kl. 17 og þá er gott að setja bátana niður í höfninni á Reykhólum, þaðan sem farið verður í siglinguna daginn eftir.
Laugardagur 2. júlí.
Á laugardagsmorgun verður haldið frá Reykhólum um kl. 10.
Áætlunin er að sigla til Akureyja en Akureyjabændur, Lilja Gunnarsdóttir og Birgir Bjarnason, hafa verið svo vinsamleg að bjóða bátafólkið velkomið að stíga á land og skoða sig um. Ef veður og aðstæður bjóða er möguleiki á að lengja ferðina að Fagradal á Skarðsströnd.
Akureyjar eru eyjaklasi sem liggur um 5 km úti fyrir Skarðsströnd og svipaða vegalengd frá Reykhólum, nokkru utan við mynni Gilsfjarðar. Í klasanum eru um 30 eyjar og grashólmar. Akureyjar þóttu fremur þægilegar til búskapar miðað við aðrar Breiðafjarðareyjar og var helsta ástæða þess sú að þær eru skammt frá landi.
Á árunum 1907-1927 fengust af Akureyjum að meðaltali 50 kg af hreinum dún, 30-40 vorkópar og svipuð tala af haustkópum, um 10 þúsund lundakofur (pysjur) og 18-20 kýrfóður af töðu. Talnaglöggir geta reiknað hvað þetta er að núvirði, en ljóst er að Akureyjar voru og eru kostajörð.
Háflóð er um kl. 18 um kvöldið þannig að þeir sem vilja geta tekið báta sína upp við ferðarlok. Gera má ráð fyrir að ferðin taki um 5-6 klst.
Um kvöldið verður haldið sameiginlegt grill við hús Báta- og hlunnindasýningarinnar, sem leggur til grill og kol og húsnæði til að matast í.
Hinir landsfrægu stuðboltar og bræður Bergsveinn og Hlynur Snær Theodórssynir munu síðan skemmta fram eftir nóttu. Barinn verður opinn. Bræðurnir eru af breiðfirskum ættum og langafi þeirra Gísli Bergsveinsson var bóndi í Akureyjum 1927-32.
Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður, mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð.
Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Vinsamleg tilmæli eru að allir þátttakendur verði með bjargbelti og að sem flestir bátar séu búnir björgunarbátum.
Björgunarsveit Landsbjargar á Reykhólum, Heimamenn, mun verða með í för með nýjan og öflugan bát okkur til halds og trausts.
Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.
Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar á www.visitreykholahreppur.is/.
Gisting í Reykhólahreppi; http://www.visitreykholahreppur.is/page/34171/.
Gisting í Dalasýslu; http://www.dalabyggd.is/ferdathjonusta/gisting/.
Báta- og hlunnindasýningin verður opin. http://visitreykholahreppur.is/page/34165/.
Frekari upplýsingar veita Harpa Eiríksdóttir, info@reykholar.is, s. 894 1011, og Sigurður Bergsveinsson, sberg@isholf.is, s. 893 9787.