Bátadagar á Breiðafirði haldnir í áttunda sinn
Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum (BogH), gengst nú fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í áttunda sinn dagana 3.-4. júlí. Eru eigendur trébáta hvattir til að mæta með báta sína. Nú er komið að því að heimsækja fjögur nes; Skálmarnes, Svínanes og Bæjarnes í Múlasveit og Skálanes í Gufudalssveit og þaðan síðan að lokum haldið að Stað á Reykjanesi þar sem lagt var upp.
Þannig hefst tilkynning varðandi Bátadaga 2015. Síðan segir:
Saga þessara sveita er samofin sögu byggðar í Breiðafjarðareyjum. Eyjabændur keyptu eldivið (hrís og mó) og fengu að flytja fé til beitar á afréttum í Múla- og Gufudalssveit. Bændur í landi fengu báta frá skipasmiðum í eyjunum og versluðu við kaupmenn í Flatey og sóttu þangað læknisþjónustu o.fl. Flóabáturinn Konráð sigldi áætlunarferðir úr Flatey í Múlasveit.
Enginn bær í Múlasveit er lengur í byggð en hlunnindi eru víða nytjuð. Árið 1986 var síðast skráður íbúi í sveitinni en hún var síðar sameinuð Reykhólahreppi.
Með í för verða menn sem lifðu þá tíma er byggð var bæði í eyjunum og Múlasveit og munu miðla þekkingu sinn í ferðinni.
Föstudagur 3. júlí, safnast saman
Ráðgert er að þátttakendur safnast saman á Reykhólum föstudaginn 3 júlí. Flóð er um kl. 20 um kvöldið og þá er gott að setja bátana niður við höfnina á Stað á Reykjanesi, þaðan sem farið verður í siglinguna daginn eftir.
Laugardagur 4. júlí
Á laugardagsmorgun verður haldið frá Stað um kl. 10 en þá er aðeins farið að falla út og við höfum því fallið með okkur. Siglt sem leið liggur að Klauf á Skálmarnesi. Búið var í Skálmarnesmúla til 1975. Eftir að hafa skoðað Skálmarnesið verður siglt til að Svínanesi þar sem búið var til 1959. Í litlu koti, Svínanesseli, dvaldi Halldór Kiljan Laxness um tíma þegar hann var að safna efni í Sjálfstætt fólk. Þar voru búskaparhættir líkir því sem verið hafði um aldir og þeim lýsir hann vel í sögunni. Því næst verður siglt yfir að Bæjarnesi en þar var búið til 1962. Frá Bæjarnesi siglum við að Skálanesi þar sem lengi var rekið kaupfélag og bensínafgreiðsla. Á Skálanesi búa hjónin Sveinn Berg Hallgrímsson og Andrea Björnsdóttir. Frá Skálanesi munum við síðan sigla að Stað á Reykjanesi. Háflóð er um kl. 21 um kvöldið þannig að þeir sem vilja geta tekið báta sína upp við ferðalok. Gera má ráð fyrir að ferðin taki um 6-8 klst. Stefnum síðan á sameiginlegt grill um kvöldið.
Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður, mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð.
Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.
Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og á Stað og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar á www.visitreykholahreppur.is/. Báta- og hlunnindasýningin verður opin alla dagana, http://visitreykholahreppur.is/page/34165/.
Frekari upplýsingar veita Harpa Eiríksdóttir, info@reykholar.is, s. 894 1011, og Sigurður Bergsveinsson, sberg@isholf.is, s. 893 9787.