Tenglar

25. mars 2014 | vefstjori@reykholar.is

Batt fótinn við lærlegginn

„Heildarútkall – Kollabúðadalur. Datt á vélsleða. Fótbrotinn.“ Svona hljóðuðu SMS-skilaboðin sem björgunarsveitarmaðurinn Játvarður Jökull Atlason fékk send í símann sinn 6. mars klukkan 12.21. Sex mínútum áður hafði honum sjálfum tekist, eftir að hafa við illan leik skriðið í símasamband, að senda neyðarlínunni SMS-skilaboð. „Hjálp“, skrifaði hann. Svo tókst honum að hringja eftir aðstoð.

 

Að þessu sinni var það björgunarsveitarmaðurinn sem var hjálparþurfi. Játvarður, eða Játi, eins og hann er kallaður, er 24 ára Reykhólabúi. Hann hafði verið að gera við snjósleðann sinn og langaði að prófa hann í góðu veðri á Þorskafjarðarheiði. Hann var einn á ferð og ætlaði ekki að vera lengi.

 

Þannig hefst ítarlegt viðtal og frásögn í þriðjudagsblaði DV. Þrjú brot úr viðtalinu til viðbótar: 

 

Játi, sem segist ágætlega kunnugur á heiðinni, fór fram af kletti og lenti ofan á sleðanum ofan í laut. Við það meiddi hann sig illa á fæti. Hann fann að honum blæddi undir gallanum og segist hafa óttast að hann væri með opið beinbrot. Með því að renna upp gallanum gat hann gengið úr skugga um að svo væri ekki. Hann sá að blóðið kom frá rassinum og var í smá stund hræddur um að hafa sprengt eitthvað innan í sér.

 

„Ég varð svolítið hræddur þegar ég sá blóðið fyrst en ég reyndi að hugsa ekki of mikið um það.“ Í ljós kom síðar að hann hafði rifið gat á aðra rasskinnina.

 

Þegar hann hafði náð áttum reyndi hann að hringja á aðstoð en náði ekki símasambandi. Hann gat ekið sleðanum svolítið en stýrisbúnaðurinn var skemmdur, svo hann þurfti að reyna að snúa honum.

 

„Ég skríð fram fyrir sleðann og reyni að draga hann til að framan. Sársaukinn var svo mikill við átökin að ég næ ekki að snúa honum. Ég skríð þá aftur fyrir og reyndi að lyfta honum upp að aftan. Það var sama sagan.“ Hann kom sleðanum ekki upp úr lautinni.

 

Þegar ljóst var að sleðinn var óökuhæfur tók Játi eftir því að blóðið var meira en hann hafði talið í fyrstu. Blóðið lak niður undan annarri skálminni svo hann skildi eftir sig slóð þegar hann færði sig til. „Ég sé að blóðið er meira en ég hafði gert mér grein fyrir.“

            – – –

Játi er vanur að bjarga sér og dó ekki ráðalaus. Hann tók ólina af snjóflóðaýlu sem hann hafði meðferðis og freistaði þess að binda fótinn við lærlegginn, þannig að kálfinn lægi við aftanvert lærið. „Ég tek fótinn aftur og reyni að hnýta kálfann upp við lærið á mér. Það var nokkuð þægileg staða,“ segir hann af æðruleysi.

 

Hann gafst fljótlega upp á því að skríða. Bandið hélt ekki og verkirnir voru miklir. „Á þessum tíma er ég bæði orðinn hræddur og reiður út í sjálfan mig að hafa verið með þennan glannaskap. Þetta var ekkert annað,“ viðurkennir hann.

 

Hann segist í vonleysi hafa tekið upp símann og lyft honum eins hátt og hann gat og reynt að senda neyðarlínunni skilaboðin „Hjálp“. „Ég held símanum uppi og horfi á skjáinn. Allt í einu sé ég að skilaboðin fara út. Það var mjög mikill léttir. Ég áttaði mig á því að þegar haft yrði samband við aðstandendur myndi Aldís [konan hans, innsk.blm.] vita hvar ég væri.“

            – – –

Eftir tvær vikur á spítala er Játi á batavegi. Hann gengur við hækjur og prísar sig sælan að ekki hafi farið verr. Játi slær þang í Breiðafirði á sumrin og stefnir að því að vera kominn til vinnu fyrir mitt sumar. Núna, tæpum þremur vikum eftir slysið, hefur Játi eftir þeim sem fyrstur kom á vettvang, að aðkoman hafi ekki verið falleg. „Hann sagði að ummerkin hefðu verið eins og eftir sel sem hefði verið skotinn og dreginn þarna um,“ segir hann léttur í bragði að lokum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31