Báturinn sem hvarf í fyrstu dúnleitarferðinni
Ég ætla að lýsa hér einum degi vorið 1949. Pabbi vakti mig snemma og bað mig að koma ásamt fleirum til að að fara í dúnleit fram í eyjar. Ég flýtti mér að verða tilbúin, en þegar við vorum að leggja af stað kom strákur, sem langaði til að fara, og þá sagði pabbi að óþarfi væri fyrir mig að fara. Og þannig fór það.
Veður var gott um morguninn. Um klukkan fjögur um daginn tóku einhverjir eftir að reyk lagði upp í skeri, sem nefnist Skarfasker. Reykurinn hélt svo áfram að sjást og fórum við heima að óttast að eitthvað hefði komið fyrir. En til þess að geta kveikt eldinn höfðu þeir getað tekið rusl úr skarfshreiðrum og þurrt þang, því ekkert gras er þarna. Var nú farið að athuga með bát og mannskap til að skoða þetta nánar. Sá eini tiltæki var lekur lítill árabátur.
Lagt var af stað á honum, en klukkan var þá orðin sjö um kvöldið. Tveir reru, einn jós stöðugt sjó úr bátnum. Út voru þeir rúman hálftíma. Þá kom í ljós að um fjögurleytið höfðu dúnleitarmenn verið að fara framhjá Skarfaskeri og ákveðið að koma þar við til að athuga hvenær hugsanlega væri hægt að fara í skarfafar.
Pabbi var vanur að ganga frá bátnum sjálfur, en núna átti sá sem fór í minn stað að passa bátinn. Trúlega hefur hann langað upp í skerið og ekki kunnað að binda bát. Nema, þegar menn komu og ætluðu að halda leit áfram, var báturinn að talið var 50 til 70 metra frá landi. Komin var talsverð gola og bara einn maður í hópnum allvel syntur.
Pabbi vildi ekki hætta lífi neins manns, þannig að þarna fór báturinn með öllu innanborðs, nesti, fötum og dún, því þeir voru búnir að leita nokkrar eyjar.
Veður hafði farið versnandi og heimferðin reyndist erfið. Hálfa klukkustund voru þeir á útleið en tvo klukkutíma heim og mátti ekki tæpara standa að allir kæmust heilir heim. En tjón pabba, Tómasar Sigurgeirssonar bónda á Reykhólum, var mikið. Bátinn hafði hann keypt haustið áður og var þetta fyrsta dúnleitarferðin á honum.
Ég sá mikið eftir að ég skyldi ekki fara í þessa ferð, því ég hefði gegnt pabba og passað bátinn meðan karlmennirnir fóru upp í skerið.
En svona er lífið stundum, og engu verður breytt eftir á.
- Þetta skráði Kristín Ingibjörg Tómasdóttir á Reykhólum þrem dögum eftir að þetta skeði, þá 17 ára gömul.
Sjá einnig:
Snjóflóðið á Grund: Þá komumst við ekki heim (Kristín Ingibjörg Tómasdóttir segir frá)
_____________
Bátinn sem tapaðist átti áður Aðalsteinn Helgason á Svínanesi í Múlasveit. Í eigu Aðalsteins bar hann heitið Lára. Einna líklegast þykir að báturinn hafi ekki verið búinn að fá annað nafn eftir að Tómas á Reykhólum eignaðist hann haustið áður en þetta gerðist. Myndin af Láru sem hér fylgir er tekin 1936 eða 1937.