Bekkjarpartí hjá 4.-6. bekk í Reykhólaskóla
Partíið er liður í því að skapa betri bekkjaranda og fá krakkana, foreldrana og kennarana til að eiga saman jákvæða og skemmtilega stund fyrir utan hið hefðbundna skólastarf.
Krakkarnir kynntu fyrir foreldrum sínum ýmislegt af því sem þeir hafa verið að fást við í tengslum við námið í haust. Þau sýndu og sögðu frá verkefnum, lásu upp og fluttu leikþátt. Meðal verkefna sem 4. bekkur kynnti má nefna bílabraut, bensínstöð, viðtal við Eyva „búðarmann“ og verkefni um gömlu mánuðina (samfélagsfræði og náttúrufræði). Eldri krakkarnir í 5.-6. bekk kynntu söguna um Benjamín dúfu í leikþætti, en leikmuni, þ.e. skjöld og sverð, höfðu þau búið til sjálf með aðstoð Áslaugar og Rebekku smíðakennara (bókmenntir, smíði). Þau sýndu einnig hindúamottu sem þau höfðu útbúið hjá Lóu (samfélags- og trúarbragðafræði) og margt fleira.
Allir foreldrarnir lögðu síðan til veitingar þannig að úr varð hið glæsilegasta kaffihlaðborð.
Við vonum að allir hafi haft gaman af þessu skemmtilega bekkjarpartíi. Alla vegana virtust krakkarnir í hópnum vera hinir ánægðustu.
- Áslaug B. Guttormsdóttir.
Myndirnar tók Ingibjörg Þór. Smellið á myndirnar til að stækka þær.
Ásta Sjöfn, laugardagur 20 nvember kl: 10:56
Flottir krakkar!