Besta holdfylling sláturlamba sem sést hefur
„Það er ljóst að við erum búin að ná ótrúlegum framförum með íslensku sauðkindina í gegnum ræktunarstarfið. Árangurinn er samanburðarhæfur við bestu kjötkyn annars staðar í heiminum, til dæmis hvað varðar þykkt bakvöðva,“ segir Eyþór Einarsson, ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Við uppgjör sláturtíðar og útgáfu Hrútaskrár fara ráðunautar yfir stöðu ræktunarstarfsins með bændum á Hrútafundum.
Þetta kemur fram í úttekt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í gær. Þar segir einnig m.a.:
Sauðfjárbændur bíða ávallt spenntir eftir Hrútaskránni sem kemur út í lok nóvember ár hvert. Skráin hefur verið aðgengileg á vef RML um tíma og prentútgáfan er nú fáanleg. Í Hrútaskránni eru upplýsingar um eiginleika 45 hrúta sem eru á sæðingastöðvunum í Laugardælum og Borgarnesi, um árangur sæðinga og fleira.
„Þeir hrútar sem teknir eru á stöð eru þar vegna þess að þeir hafa eitthvað sérstakt til brunns að bera. Við teljum að hrútakosturinn sé gríðarlega sterkur. Þarna eru margir nýir og spennandi hrútar og sífellt fleiri hrútar sem bæði eru sterkir lambafeður og ærfeður,“ segir Eyþór. Hann segir að þarfir bænda séu mismunandi eftir því hvað þeir þurfa að bæta og því sé reynt að hafa hrútana fjölbreytta enda markmiðið að viðhalda helstu sérkennum stofnsins. Flestir eigi að geta fundið álitlegan hrút við sitt hæfi.
Eyþór telur að framfarir í sauðfjárræktinni skili sér vel í gegnum sæðingahrútana. Bendir hann á að útkoman í flokkun sláturlamba í haust, samkvæmt bráðabirgðatölum kjötmats Matvælastofnunar, sýni það. Þannig hafi holdfyllingareinkunn sláturlamba verið 8,76 að meðaltali, sem sé betra en sést hafi frá því flokkunarkerfið var tekið upp. Fitueinkunn hafi verið 6,39 að jafnaði sem er næstminnsta fitueinkunn sem sést hafi. Þá var meðalfallþungi sláturlamba 16,2 kg sem er með því mesta sem verið hefur.
Eyþór segir að vissulega leiki tíðarfarið alltaf stórt hlutverk. Gott haust hafi bjargað miklu í ár. „Það er magnað að fá þessa niðurstöðu í haust, miðað við hvernig útlitið var í vor,“ segir hann.
Sjá einnig: Mjólkin flýtur úr keröldunum