Binda vonir við jákvæð þáttaskil í Teigsskógi
Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) fagna mjög þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar, að fallast á beiðni Vegagerðarinnar um heimild til endurupptöku á þeim hluta úrskurðar stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar sem varðar rúmlega 15 km kafla frá Þorskafirði og vestur fyrir Gufufjörð og fer meðal annars um Teigsskóg. Það er von SASV að Vegagerðin hraði nú eins og kostur er vinnu sinni að gerð nýrrar tillögu að matsáætlun svo hefja megi framkvæmdir eins fljótt og kostur er.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Einari Sveini Ólafssyni, formanni SASV fyrir hönd stjórnar. Þar segir ennfremur:
Ákvörðun Skipulagsstofnunar grundvallast á þeim verulegu breytingum sem Vegagerðin hefur gert á framkvæmdaáformum sínum á svæðinu, ekki síst í Teigsskógi, þar sem horfið hefur verið frá efnistöku með tilheyrandi vegslóðum. Stofnunin telur einnig að breytingar á legu vegarins og hönnun þverana yfir Djúpafjörð og Gufufjörð séu líklegar til að hafa áhrif á umhverfismat framkvæmdarinnar hvað varðar áhrif á skóglendi, landslag og leirur og fjörur.
Endurbætur á hönnun þessa hluta Vestfjarðavegar marka veruleg þáttaskil til aukinna framfara fyrir efnahag íbúa og vaxandi atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum, allt frá Bíldudal til Reykhóla. Bættar vegsamgöngur og aukið umferðaröryggi á Vestfjarðavegi mun skjóta enn styrkari stoðum undir vöxt svæðisins með auknum ferðamannastraumi, lífvænlegri samfélögum til búsetu og fyrir fyrirtæki svæðisins sem þurfa að koma aðföngum og vörum vestur og afurðum á markaði innanlands og erlendis.
Meðfylgjandi mynd er úr Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, 11. tbl. 2015. Rauða línan er eldri veglínan sem fallið hefur verið frá.