27. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is
Bingópeningarnir runnu til Vinafélags Barmahlíðar
Vel á annan tug þúsunda safnaðist á bingóinu á Barmahlíðardeginum á sumardaginn fyrsta. Alla vinninga gaf Eyvindur í Hólakaupum en afraksturinn rann til Vinafélags Barmahlíðar. Félagið var stofnað fyrir sex árum og hefur frá upphafi lagt heimilinu og heimilisfólkinu lið á marga vegu, hvort heldur með gjöfum eða félagsstarfi eða á annan hátt.
Barmahlíðardagurinn er haldinn hátíðlegur á sumardaginn fyrsta ár hvert. Að þessu sinni var þess minnst, að 25 ár eru liðin frá því að Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum var tekið í notkun.
Bingóið fór fram í borðsal Reykhólaskóla. Myndirnar sem hér fylgja tók Sveinn Ragnarsson. Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri annaðist bingóstjórnina.