Tenglar

26. mars 2020 | Sveinn Ragnarsson

Birillo í heimahöfn

Glittir í skútuna utan við Æðarklettana
Glittir í skútuna utan við Æðarklettana
1 af 8

Um kvöldmatarleytið  núna 25. mars í logn- eða hægviðrisdrífu sigldi (bókstaflega) í höfn á Reykhólum seglskúta, sem var að koma til heimahafnar í fyrsta skipti. Það er auðvitað ekki nýtt að það komi fley í Reykhólahöfn, þar hafa átt heimahöfn á þessum 45 árum síðan hún var gerð, alls konar fleytur, þangskip, dráttarbátar, þangsláttuprammar, fragtskip, og trillur og skemmtibátar úr tré, plasti, járni, áli og gúmmíi. Meira að segja innrásarprammi var um tíma þarna.

Þrátt fyrir svona margbreytilegan flota, þá er þetta fyrsta seglskútan sem kemur, í eigu heimamanns. Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum keypti hana í fyrravor á Tenerife og þegar búið var að standsetja hana fyrir ferðalagið heim, réði hann áhöfn til að sigla henni til Írlands.

 

Milli Tenerife og Írlands er ekki farin beinasta leið á seglskipi, heldur er farið vestur fyrir Azoreyjar. Ástæða þess er ríkjandi vindáttir á Atlantshafinu á þessum árstíma, sem skapast af háhrýstisvæði sem er viðvarandi yfir Azoreyjum og þá liggur í norðanáttum suður með Pyreneaskaganum og Marokkó. Ferðalagið til Írlands gekk ágætlega og var tekið land í Cork. Þar beið Birillo, en svo heitir skútan, eiganda síns og nýrrar áhafnar.

 

 Að loknum sauðburði, um 10. júní fór Bergsveinn ásamt áhöfn að sækja skútuna. Fyrst var siglt til Dublin, en þar var stuttur stans. Þaðan var farið til Stornoway á Suðureyjum, þar komu þau á þjóðhátíðardaginn 17. Júní. Daginn eftir var svo haldið til Færeyja, þar var komið við í Þórshöfn og gist á Nólsoy.

 

Frá Færeyjum var ferðinni heitið til Vestmannaeyja, en þegar þau voru suður af Meðallandsbug var vindátt heldur óhagstæð, SV gola, svo hugmyndin var að nota vélina síðasta spölinn en þá kom í ljós bilun í henni, þegar svo var komið var brugðið á það ráð að vinda upp segl og sigla til Hafnar í Hornafirði. Þar var Birillo meðan beðið var eftir varahlutum. Þegar búið var að gera við var siglt í Stykkishólm og þar er skútan búin að vera þar til nú, að henni var siglt til heimahafnar. Það fer að styttast í 1 ár síðan að ferð Birillo hófst suður á Tenerife og hingað á nýjar heimaslóðir.

 

 Það er gaman að segja frá því að á þessum síðasta legg leiðarinnar var Guðlaug dóttir Bergsveins í áhöfn, og í tilefni af þessari ferð klæddist hún lopapeysu með skútumunstri.  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30