Tenglar

26. janúar 2012 |

Birna E. Norðdahl, skákin og Reykhólar

Birna E. Norðdahl, skákmeistari og frumkvöðull í kvennaskák.
Birna E. Norðdahl, skákmeistari og frumkvöðull í kvennaskák.
1 af 2

Einhver allra merkasta skákkona Íslendinga fyrr og síðar á sterk tengsl við Reykhóla. Það er Birna E. Norðdahl, sem varð tvívegis Íslandsmeistari kvenna og tefldi á tveimur Ólympíumótum fyrir Íslands hönd. Síðasta áratug ævinnar bjó Birna í Barmahlíð á Reykhólum og þar úti fyrir má sjá handaverk hennar. Meðal barna Birnu eru þær Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum og Vaka Helga Ólafsdóttir sem var á sínum tíma búsett á Reykhólum. Birnu Norðdahl er minnst hér núna í tilefni af fyrsta Skákdegi Íslands (sjá næstu frétt á undan).

 

Birna Eggertsdóttir Norðdahl fæddist á Hólmi við Reykjavík 30. mars 1919. Mannganginn lærði hún ung af bróður sínum en fyrsta skákmótið sem hún tefldi á var Skákþing Reykjavíkur árið 1940. Þátttaka konu á skákmóti vakti mikla athygli á þeim tíma. Birna hafði aldrei áður séð skákklukku né heldur skrifað niður skákir.

 

Mjög löngu seinna eða árið 1975 var Birna meðal stofnenda kvennadeildar Taflfélags Reykjavíkur. Það var svo 1978 sem íslenskar skákkonur kepptu á Ólympíuskákmóti í fyrsta sinn.

 

Í ítarlegri samantekt um ævi og skákferil Birnu E. Norðdahl í Tímaritinu Skák árið 2002 segir, að það hafi verið

 

„... fyrst og fremst elju og áræði Birnu að þakka, sem gekkst fyrir fjársöfnun í því skyni. Birna mætti síðan á fund hjá stjórn Skáksambands Íslands og afhenti 1.200.000 krónur sem verja skyldi til þátttöku skáksveitar kvenna á Ólympíuskákmótinu í Buenos Aires í Argentínu. Þetta var leikur sem eingöngu var eitt svar við - kvennasveit á Ólympíumóti var staðreynd. Stjórnin færði Birnu einlægar þakkir fyrir og hvatti aðra til að taka sér hana til fyrirmyndar.“

 

Birna tefldi á sjö Íslandsmótum kvenna samfleytt á árunum 1975-81 og varð Íslandsmeistari 1976 og 1980. Hún var þannig komin hátt á sextugsaldur og yfir sextugt þegar hún hlaut Íslandsmeistaratitlana og verður það að teljast mjög athyglisvert í keppni við ungar og öflugar skákkonur. Reykjavíkurmeistari varð hún árið 1976. Hún tefldi á Ólympíumótunum í Argentínu 1978 og á Möltu 1980 – og var þá ekki aðeins margföld amma heldur var hún líka orðin langamma. Spyrja má varðandi þetta síðasta: Heimsmet - sem aldrei verður slegið?

 

Birna var mjög handlagin eins og glögglega er greint frá í minningargreinum sem birtust að henni látinni. Hún teiknaði, málaði, smíðaði (jafnvel hús), renndi í rennibekk og skar út. Uppáhalds sjónvarpsefnið hennar síðustu æviárin, þó að sjónin væri mjög farin að daprast, var Formúla 1 og uppáhaldsliðið hennar var McLaren.

 

Fyrri myndin af Birnu E. Norðdahl sem hér fylgir var forsíðumynd á Tímaritinu Skák árið 1991. Seinni myndin var tekin sumarið 2003 þar sem Birna tyllir sér niður frá vinnu sinni. Garðurinn litli og skjólgóði norðan við Barmahlíð á Reykhólum er eingöngu hennar handaverk.

 

Þessi fjölhæfa og kraftmikla kona andaðist í febrúar 2004, rétt tæplega hálfníræð að aldri. Hún skipar heiðurssess bæði í skáksögu og kvennasögu Íslendinga.

 

Athugasemdir

Björk Stefánsdóttir, fimmtudagur 26 janar kl: 21:01

Frábær kona hún Birna, það er alveg yndislegt að hafa fengið að kynnast henni, átti margar góðar Næturvaktir með henni ;-)

Einar Örn Thorlacius, fstudagur 27 janar kl: 08:28

Man vel eftir Birnu frá Reykhólaárum mínum. Ég kem til Reykhóla haustið 2002 og Birna andast í febrúar 2004. Þetta er ekki langur tími´en konan er mér minnisstæð. Blessuð sé minning hennar.

Dalli, mnudagur 05 oktber kl: 14:32

Það voru forréttindi að fá að kynnast Birnu og tefla við hana. Auk starfa hennar fyrir kvennaskák, vann hún mikið fyrir Gullaldarliðið ( Jón L. Helga, Margeir, Jóhann o.fl.) sem elskaði hana og dáði.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30