Bjarkalundur opnaður í lok maí
Á 71. aldursári Bjarkalundar ætla nýir aðilar að reka hótelið, í sumar til að byrja með. Þær heita Hildur Árnadóttir og Elísabet Agnarsdóttir.
Þær sendu eftirfarandi tilkynningu sem er birt hér um leið og þeim er óskað velfarnaðar í þessu verkefni;
„Sæl verið þið íbúar Reykhólahrepps,
Við viljum kynna okkur fyrir ykkur en við erum nýjir rekstraraðilar Bjarkalundar.
Við erum tvær, Hildur Árnadóttir og Elísabet Agnarsdóttir sem ætlum að leigja reksturinn fram á haust. Elísabet er með hótelstjórnunarmenntun og rekur Thomsen apartments í Reykjavík og ég sjálf er menntuð innanhússhönnuður en með áralanga reynslu af rekstri og stjórnun.
Í gegnum tíðina hefur Bjarkalundur verið ykkar samkomustaður og vonum við svo sannarlega að svo verði áfram, við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að láta ykkur líða vel hjá okkur. Við ætlum að bjóða upp á góðan mat, bakkelsi, gott kaffi og margt fleira.
Saga Bjarkalundar er mikilvæg og langar okkur að nýta okkur hana þegar við frískum upp á staðinn fyrir sumarið og þá langar okkur að leita til ykkar.
Ef þið eigið myndir, punt, sófa, hillur, borð, stóla eða nánast hvað sem er sem hefur einhverja sögu og þið mynduð vilja lána okkur eða gefa þá myndum við þiggja það. Oft leynast gersemar í geymslunum, ef svo er í þinni þá munum við vera á staðnum næsta sunnudag til að taka á móti.
Það sem er lánað verður merkt vel og skráð niður.
Með þessu þá fáum við ykkar sögu og sögu staðarins inn á Bjarkalund.
Við viljum búa til platform fyrir félagslífið þar sem ykkur líður vel að koma og fá ykkur rauðvínsglas eða kaffibolla með tilheyrandi og hvað er þá skemmtilegra en að sjá hluti sem þið þekkið.
Einnig ef þið hafið góða hugmynd þá eru allar ábendingar vel þegnar í hugmyndabankann!
Við erum einnig að leita af starfsfólki til að taka þátt í þessu ævintýri með okkur svo ef þú ert ein/n af þeim endilega sendu mér endilega einkaskilaboð.
Við munum opna seinni partinn í mai.
Hlökkum til að sjá ykkur og verið velkomin!“
Bestu kveðjur Hildur og Elísabet