Björgunarhundum fjölgar á Vestfjörðum
Nítján björgunarteymi luku útkallsprófum á vetrarnámskeiðinu sem er árviss viðburður í starfi Björgunarhundasveitar Íslands. Þrjú teymi tóku A-próf fyrir fullþjálfaða björgunarhunda. Þrjú teymi luku B-prófi, sem er skilyrði fyrir því að hundur fari á útkallslista. Sex teymi luku C-prófi sem er unghundapróf, nokkurs konar inntökupróf í Björgunarhundasveitina. Þá fóru sjö teymi í A-endurmat, sem er tekið annað hvert ár og er skilyrði fyrir því að A-hundar haldist á útkallslista.
Æft var á þremur svæðum með sex leiðbeinendum. Tveir þeirra voru gestaleiðbeinendur frá Noregi, þeir Arne Andreassen og Tor Oyvind Bertheussen.
Segja má að Vestfirðingar eigi drjúgan hlut í virkni Björgunarhundasveitar Íslands um þessar mundir. Á Ísafirði eru nú fimm útkallsteymi og þrjú á Patreksfirði. Formaður sveitarinnar er Auður Yngvadóttir á Ísafirði.