Björgunarsveitarútköll 2012: Fastur ofan á hliðgrind
Björgunarsveitin Heimamenn í Reykhólahreppi hefur sinnt um fjörutíu útköllum á árinu sem er að kveðja. Í langflestum tilvikum var ekki um neitt alvarlegt að ræða, sem betur fer, heldur vegaaðstoð, að sögn Erlu Reynisdóttur í Mýrartungu, eins félagsmanna í björgunarsveitinni. Þar nefnir hún einkum bensínleysi, sprungin dekk og festur í snjó og krapi. Erla segir vandræðin geta verið af ýmsu tagi:
„Eins og Leifur í Djúpadal orðaði það um eitt atvikið: Hann sat fastur ofan á hliðgrind. Það getur ýmislegt komið upp á þegar ákafinn í rjúpnaveiðimönnum er of mikill, þá festa þeir sig hreinlega hvar sem er.“
Til samanburðar má nefna, að árið 2009 voru útköll sveitarinnar sextán talsins. Þannig eru þau á þessu ári 250% fleiri en fyrir þremur árum.
Þessar stundirnar eru félagar í Heimamönnum að aðstoða Landsnetsmenn við leit að bilunum á raflínum eftir óveðrið og aðrir að negla niður þök og þakplötur á nokkrum stöðum.
Frá Djúpadal einum var farið sextán sinnum til aðstoðar á árinu. Úr Fremri-Gufudal voru margar ferðir farnar til aðstoðar við ökumenn. Þar til viðbótar var Einar í Fremri-Gufudal með vaktir á Klettshálsi þrjá laugardaga af fjórum á rjúpnaveiðitímabilinu í haust, en að jafnaði er Klettsháls ekki opnaður á laugardögum.
„Við hér sunnanmegin höfum farið fimmtán sinnum í útköll vegna vegaaðstoðar á svæðinu frá Reykhólum og inn í Gilsfjörð. Mörg af útköllum sveitarinnar hafa verið á fjallvegina, upp á Þorskafjarðarheiði, Hjallaháls, Klettsháls og Þröskulda,“ segir Erla Reynisdóttir.
„Alvarlegri útköll sem við fengum voru fjögur, en sem betur fer varð ekki verra úr. Í einu af þeim tilvikum strandaði bátur fyrir utan Reykhóla en losnaði svo af sjálfsdáðum á flóðinu, og í einu tilviki var um gabb að ræða.“
Engar breytingar hafa orðið á tækjabúnaði Björgunarsveitarinnar Heimamanna upp á síðkastið, nema hvað Landróverinn hefur verið hækkaður upp þannig að hann er orðinn enn öflugra tæki en áður. Tækjakosturinn fyrir utan Landróverinn samanstendur af snjóbíl, sem hefur reyndar verið lítið notaður hátt í tuttugu ár nema við raflínuviðgerðir, vörubíl til að flytja snjóbílinn, slöngubáti og einum elsta vélsleða landsins. Bækistöðvarhús Heimamanna að Suðurbraut 5 á Reykhólum er einnig í eigu sveitarinnar.
Félagar í Björgunarsveitinni Heimamönnum eru mun fleiri en eru á útkallslista hennar. Erla segir að nýlega hafi öflugir menn bæst formlega í hópinn, svo sem bræðurnir Brynjólfur V. Smárason og Ólafur Einir Smárason frá Borg í Reykhólasveit og Styrmir Sæmundsson í Fremri-Gufudal og fleiri. Tæplega tugur kvenna er skráður í sveitina.
Flugeldasalan um hver áramót er helsti tekjustofn Heimamanna en auk þess fást peningar í kassann vegna sölu á Neyðarkallinum, greni og fleira smálegu. Flugeldasalan í húsi sveitarinnar á Reykhólum er opin kl. 14-22 í dag, sunnudag, og kl. 13-16 á morgun, gamlársdag.
Þegar flugeldasöluna ber á góma biður Erla fyrir innilegar þakkir til Braga Jónssonar fyrir ómetanlegt starf í þágu sveitarinnar. Enda þótt hann sé fyrir nokkrum árum farinn suður í skóla og vinnu er hann máttarstólpi sveitarinnar þegar eitthvað þarf að gera, segir hún. Undanfarin ár hefur hann séð að öllu leyti um flugeldasölu Heimamanna og flugeldasýninguna við áramótabrennuna á Reykhólum.
„Allt hans sjálfboðastarf í öll þessi ár verður aldrei nógsamlega þakkað“, segir Erla.
Og hún bætir við: „Ég hvet alla sem geta hjálpað öðrum með einhverjum hætti að láta ekki sitt eftir liggja.“
Þess má geta fyrir ókunnuga, að foreldrar Braga eru hjónin Ingibjörg Sæmundsdóttir og Jón Þór Kjartansson á Reykhólum. Jón rak búðina á Reykhólum um árabil en þar áður og enn lengur verslunina Skriðuland í Saurbæ sunnan Gilsfjarðar.
Stjórn Björgunarsveitarinnar Heimamanna skipa Jens Hansson í Mýrartungu, formaður, Gústaf Jökull Ólafsson á Reykhólum, Einar Hafliðason í Fremri-Gufudal og Guðmundur Ólafsson á Litlu-Grund.
Jens formaður er eiginmaður Erlu Reynisdóttur, sem hér hefur verið rætt við. Henni eru mál Heimamanna næsta skyld, því að Bergsveinn bróðir hennar á Gróustöðum var formaður sveitarinnar áður en Jens tók við fyrir tíu-tólf árum. Þau Bergsveinn og Erla eru meðal margra barna Reynis Bergsveinssonar frá Gufudal, sem kunnur er fyrir minkasíur sínar (sjá hér og hér á þessum vef).