Björgunarsveitin: Flugeldasalan svipuð og í fyrra
Bragi Jónsson, umsjónarmaður flugeldamála hjá Björgunarsveitinni Heimamönnum í Reykhólahreppi, er þokkalega ánægður með flugeldasöluna að þessu sinni - allavega miðað við veður, eins og hann orðar það. Hann segir að hún sé mjög svipuð og í fyrra, en árin á undan hafi hún alltaf aukist með hverju ári.
Vafalítið er að illviðrið síðustu dægrin og leiðindaveður allt fram á daginn í dag, sjálfan gamlársdag, eigi einhvern þátt í því að hún jókst ekki milli ára eins og venjulega. „Samt get ég ekki annað en verið ánægður,“ segir hann.
Fyrst kom Bragi að flugeldasölunni hjá björgunarsveitinni fyrir átta árum en síðustu fimm árin hefur hann annast hana að öllu leyti. Nú sem fyrr sér hann líka um flugeldasýninguna við áramótabrennuna á Reykhólum.
Sjá einnig:
► Björgunarsveitarútköll 2012: Fastur ofan á hliðgrind