Tenglar

3. nóvember 2011 |

Blaðið List á Vestfjörðum komið í dreifingu

Kynningarrit hins unga Félags vestfirskra listamanna, List á Vestfjörðum, er komið út með stuðningi Menningarráðs Vestfjarða. Félagið var stofnað í vor og kannski er nafn þess lítið eitt villandi. Í því er ekki aðeins listafólk heldur einnig unnendur vestfirskra lista og listiðkunar og öllum er frjálst að vera í félaginu, hvar svo sem þeir búa. Félagar eru þegar orðnir um hundrað talsins. Eitt af fyrstu verkum félagsins var að gefa út blaðið sem hér um ræðir. Dreifingin er hafin og verður blaðinu komið inn á sérhvert heimili á Vestfjarðakjálkanum á næstu dögum.

 

Blaðið verður líka aðgengilegt víðar enda þykir félagsfólki brýnt að hróður vestfirskra listamanna berist sem víðast. Stefnt er að því að blaðið komi út á hverju ári enda efniviðurinn svo til óþrjótandi að mati þeirra sem standa að Félagi vestfirskra listamanna.

 

„Ekki getur allur listamannaskarinn stöðugt setið á rökstólum þó þeir séu komnir saman í félag. Þess vegna gefa þeir út blað þannig að þeir geti lesið hver um annan. Og ekki bara þeir heldur getur öll vestfirsk alþýða lesið í forundran um hina ótrúlegu alltumlykjandi listagrósku svæðisins. Ekki nóg með það heldur getur hver sem er gengið í félagið, verið því styrkur og fengið að njóta skapandi félagsskapar í staðinn. Slíkt hefur gjörbylt mörgu mannslífinu,“ segir í Ávarpi stjórnar í ritinu.

 

Stjórn Félags vestfirskra listamanna skipa Elfar Logi Hannesson, Matthildur Helga- og Jónudóttir og Ómar Smári Kristinsson. Ritstjórn blaðsins önnuðust Sunna Dís Másdóttir og Guðrún Sigurðardóttir en umbrot var í höndum Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur. Forsíðumynd gerðu Baldur Pan og Kolbrún Elma Schmidt.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30