Tenglar

16. maí 2016 |

Bleikar heyrúllur um öll tún í sumar

KM-þjónustan í Búðardal stillir upp fyrstu bleiku heyrúllunum.
KM-þjónustan í Búðardal stillir upp fyrstu bleiku heyrúllunum.

Í sumar munu bleikar heyrúllur skreyta tún bænda um allt land í fyrsta sinn. Þetta uppátæki tengist átaki bænda, dreifingaraðila og framleiðanda heyrúlluplasts að minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja um leið málefnið. Framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur  leggja fram andvirði um einnar evru hver eða samtals 425 krónur af hverri seldri bleikri plastrúllu, sem dugar á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. Andvirði söfnunarfjárins rennur til endurnýjunar tækja til brjóstamyndatöku í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

 

Upprunalega hugmyndin er frá viðskiptavini Trioplast á Nýja-Sjálandi, sem bað um bleikt rúlluplast til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir með bleika litinn og tryggt að hann standist ítrustu kröfur bænda. Nú þegar hafa bleikar heyrúllur hafið innreið sína á Nýja-Sjálandi, í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi, auk margra fleiri landa, og vakið mikla athygli.

 

Þátttakendur

Framleiðandinn Trioplast er sænskt fyrirtæki og hafa vörur þess verið til sölu á Íslandi í meira en 20 ár. Plastco hf. sem hefur umboð fyrir Trioplast á Íslandi hefur umsjón með verkefninu. Dreifingaraðilar eru Kaupfélag Skagfirðinga, Bústólpi, Sláturfélag Suðurlands, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, Kaupfélag Borgfirðinga, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og KM-þjónustan í Búðardal.

 

Bændur geta allir tekið þátt í þessu átaki með því að nálgast bleikt heyrúlluplast hjá dreifingaraðilum.

 

Myndasamkeppni: Merktu þína mynd #bleikrulla

Í tilefni af þessu verður haldin myndasamkeppni á Instagram um skemmtilegustu og frumlegustu myndirnar. Öllum er velkomið að taka þátt í henni og vekja athygli á mikilvægu málefni.

 

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá íslenskum konum. Um 200 konur greinast á hverju ári og ein af hverjum níu fær brjóstakrabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Það er eitt fárra krabbameina sem hægt er að greina á byrjunarstigum með skipulagðri leit. Allar konur á aldrinum frá 40 til 69 ára fá boð frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um að mæta í leit að brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Karl Ingi Karlsson

KM-þjónustan, Búðardal

434 1611 / 895 6677

 

– Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31