Blóðsykurmæling, bækur og kaffi og opið hús
Lionsfélagar bjóða íbúum Reykhólahrepps fría blóðsykurmælingu í borðsal Reykhólaskóla milli kl. 15 og 17 núna á miðvikudaginn, 25. nóvember. Markmið slíkra mælinga er að greina hugsanlega sykursýki. Best er að koma í mælinguna án þess að hafa neytt matar eða sykraðra drykkja næstu tvo tímana á undan. Lionsfólki til aðstoðar verður Helga Garðarsdóttir, hjúkrunarforstjóri í Barmahlíð.
Þetta framtak Lionsfólks um land allt er í tilefni af alþjóðadegi sykursjúkra, sem var um fyrri helgi. Á síðasta ári mældi Lionsfólk hérlendis blóðsykurinn í nær fjögur þúsund manns og var í kjölfarið um fimmtíu manns ráðlagt að leita læknis.
Heitt verður á könnunni og jafnframt verður Reykhóladeild Lions með kynningu og sölu á bókum af ýmsu tagi. Vonast er til þess að sem flestir komi.
Opið hús á Heilsugæslustöðinni í Búðardal
Af sama tilefni verður opið hús á Heilsugæslustöðinni í Búðardal milli kl. 14 og 17.30 á föstudaginn, 27. nóvember, og verða þar í boði blóðþrýstings- og blóðsykurmælingar í samstarfi við Lionsklúbb Búðardals. Jafnframt gefst fólki kostur að skoða stöðina og sjúkrabílana ásamt því að kynna sér starfsemina og tækjakostinn. Fulltrúar frá Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands munu afhenda henni gjöf.
Allir íbúar á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) í Dalabyggð og Reykhólahreppi eru hjartanlega velkomnir.
Þess má geta, að þennan sama dag (föstudag) býður Lyfja í Búðardal viðskiptavinum sínum 20% afslátt á gjafapakkningum og ilmvörum. Opið kl. 10-17.
Varðandi blóðsykurmælingarnar segir á vef Lions á Íslandi:
- „Við viljum með þessu vekja athygli fólks á hættunni af því að ganga með dulda sykursýki. Okkar menn verða á fjölförnum stöðum víða um land og bjóða blóðsykurmælingu. Hún tekur aðeins stutta stund en hún getur gefið vísbendingu um hvort fólk þjáist af sykursýki án þess að gera sér grein fyrir því. Mælist blóðsykurinn sjö eða hærri ráðleggjum við fólki eindregið að leita læknis. Meðferð getur borið því meiri árangur sem sjúkdómurinn greinist fyrr,“ segir Jón Bjarni Þorsteinsson, heimilislæknir og félagi í Lions.
- Til eru tvær tegundir sykursýki. Sykursýki af tegund 1 leggst aðallega á ungt fólk sem ekki hefur sterka ættarsögu. Sykursýki af tegund 2 leggst hins vegar einkum á fullorðna, sem oft hafa sterka ættarsögu. Helstu einkenni sykursýki af gerð 2 eru þorsti, tíð þvaglát, þreyta, sjóntruflanir og sveppasýkingar og kláði á kynfærum. Þeim sem hafa þessi einkenni er eindregið ráðlagt að hafa samband við lækni.
- Sykursýki er hættulegur sjúkdómur. Hann er ólæknanlegur en með réttri meðhöndlun er hægt að halda honum í skefjum og forðast fylgikvilla. Mataræði og líkamshreyfing eru hornsteinar meðferðar við sykursýki.