Tenglar

6. janúar 2016 |

Blússandi ójöfnuður eða blússandi góðæri?

Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti VG í NV-kjördæmi.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti VG í NV-kjördæmi.

Stjórnarandstaðan lagðist öll á eitt við að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja, en það fór sem fór. Ríkisstjórnin sýndi enn og aftur sitt rétta andlit og sannaði að hún þjónar fyrst og fremst efnafólki í landinu og vildi ekki koma til móts við kröfur aldraðra og öryrkja, og hafi hún skömm fyrir!

 

Þetta meðal annars segir Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri, oddviti Vinstri grænna í NV-kjördæmi, í grein sem hún sendi vefnum til birtingar undir ofanritaðri fyrirsögn. Nokkrar fleiri glefsur úr greininni: 

  • Heilu málaflokkarnir eru fjársveltir, svo sem heilbrigðis- og samgöngumál, byggða- og sóknaráætlanir, stuðningur við brothættar byggðir minnkar, aðför er gerð að menntun á landsbyggðinni með takmörkun á aðgengi að námi 25 ára og eldri í framhaldsskóla og dregið er úr jöfnun námskostnaðar.
  • Aðförin að RÚV heldur áfram, og þó tekist hafi að fá skilyrta leiðréttingu á elleftu stundu, þá dylst engum að það er verið að mylja undan stofnuninni, sem á erfitt með að sinna menningar- og lýðræðishlutverki sínu.
  • Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleymast, að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til þess að byggja, því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir.
  • Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur afsalað sér í tekjum frá því að hún tók við árið 2013. Þar má nefna uppbyggingu Landspítalans og önnur þjóðþrifamál, eins og bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega og innviðauppbyggingu samfélagsins. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd.
  • Alltof stórir hópar eru að festast í fátæktargildru, veruleiki sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um að nú sé skollið á blússandi góðæri sker í eyrun, þar sem það nær bara til þeirra útvöldu en þorri landsmanna stendur í þeim sporum að berjast við að ná endum saman um hver mánaðamót. Það hefur alla tíð verið ákveðin list stjórnvalda að blekkja með tölum: Að meðaltali hafi menn það bara fjári gott. Við skulum ætíð muna það, að á bak við lágar tekjur og tölur og línurit og alls konar mælikvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa miklar tekjur.

 

Grein Lilju Rafneyjar má lesa hér í heild og undir Sjónarmið í valmyndinni til vinstri.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31