Bókasafnið á Reykhólum: Sjálfboðaliðar óskast
Síðustu mánuði hefur Héraðsbókasafn Reykhólahrepps verið að koma sér fyrir í gamla íþróttasalnum í Reykhólaskóla og var opnað þar 1. desember. Margt er þó enn ógert við að ganga frá öllum þeim bókum sem ratað hafa á safnið. Geiradalsbókasafn hefur nú verið flutt úr Vogalandi í Reykhólaskóla og mikil vinna er eftir við að merkja bækur þess, plasta og skrá. Einnig á eftir að skrá og merkja bækur sem gefnar hafa verið á safnið. Óskað er eftir sjálfboðaliðum til aðstoðar við þessa vinnu.
Þeir sem áhuga hafa á að eiga góða stund á bókasafninu við þessa iðju geta haft samband við Hörpu Eiríksdóttur bókavörð í síma 894 1011. Þeir sem hafa þegar boðið fram aðstoð sína eru einnig beðnir að hafa samband við Hörpu. „Ætlunin er að eiga góða kvöldstund saman einhvern tímann í næstu viku. Margar hendur vinna létt verk“, segir Harpa.
01.12.2011 Bókasafnið opnað í gamla leikfimisalnum - myndir