„Bóndi reiður og sár út í Bændasamtökin“
„Daníel Heiðar Jónsson bóndi á Ingunnarstöðum í Geiradal í Reykhólahreppi rak upp stór augu þegar hann sá frétt Vísis undir fyrirsögninni „Bændasamtökin styrkja þá sem þeim sýnist“. Því svo mikið er víst að ekki hafa Bændasamtökin styrkt Daníel í hans baráttu.“ Þannig hefst frétt á vefnum visir.is í dag undir fyrirsögninni Bóndi reiður og sár út í Bændasamtökin. Þar segir ennfremur:
Daníel stendur í málaferlum gegn Hamla 1 vegna þess að hann er að missa bú sitt. Hann, og lögmaður hans Ólafur Kristinsson, hdl, líta svo á að um grundvallarmál sé að ræða fyrir bændastéttina og hafa leitað til Bændasamtakanna um stuðning en hafa komið að lokuðum dyrum.
Daníel segist, í samtali við Vísi, hafa orðið bæði hissa og svo reiður þegar hann sá fréttina. „Það er ekkert hægt að lýsa þessu öðruvísi. Fyrst varð ég gersamlega kjaftstopp. Og svo varð maður reiður á eftir.“
Fréttina má lesa hér í heild. Tekið skal fram, að með því að taka hana hér inn á vef Reykhólahrepps felst engin afstaða til málsaðila eða málavaxta.